Höfuðlausn kom út í ágúst 2023 og er söguleg skáldsaga. Hér eru upphafskaflarnir úr bókinni.
Iðrun

Tússteikning.
Megi Guð minn almáttugur vera mér náðugur fyrir allt það synduga sem minn huga hefur gist og þær gjörðir er hendur mínar hafa framið frá því ég fyrst dró andann í þessum volaða heimi. Ég skynja mitt skapadægur og fagna því að mæta Christum Jesús himninum við hlið þér, miskunnsami Drottinn. Samviska mín er svört sem nýtekin gröf og ég finn mig ekki verðugan að sitja til borðs með Guðs englum fyrr en ég hef lypt minni sálu fyrir auglit þitt og bekennt þá fólsku sem mitt líferni hefur valdið saklausu samferðafólki. Minn lúni líkami er innanétinn og saurgaður og aldrei framar mun ég finna hlýju lífsins sólar. Rotnandi þungur daunninn af ormríkri mold mun brátt fylla vit mín því allt illt á ég á skilið fyrir svik mín við lífið sem þú gapst mér á krossinum, kæri Christus.
Ég rita þessa stafi í þeirri fánýtu von að einhver muni skilja mína iðran og forláta mínar syndugu gjörðir allt frá barnsaldri því í fávisku minni þóttist ég klæðast skikkju ástar þegar hugur minn allur var heltekinn lostugum löngunum og djöfulsins oflæti. Öll mín ætlan þóttist göfug en ekkert dylst þínu alsjáandi föðurauga og það er mín sáluhjálp að hefja mína einlægu játningu á þeim Drottins degi sem eins og allir dagar frá burði vors frelsara er helgaður þér, almáttugur Guð, annan Dominus eptir blessað nýársdægrið, 8. janúar 1832.
Mánudagur, 8. janúar 1996, kl. 15:00

„Afhverju ertu að sýna mér þetta?“
Ég rétti honum aftur gulnaða pappírsörkina sem hann hafði tekið samanbrotna upp úr koparslegnum kistli sem lá á litla skrifborðinu út við gluggann og afhent mér.
„Og hver var þessi óskaplega synduga og iðrunarfulla manneskja? Drap hún kannski mann?“
Öldungurinn sem sat á móti mér svaraði ekki strax, heldur braut pappírsörkina saman eftir velktum fellingunum. Örkin lagðist í brotin eins og af sjálfu sér og það var auðséð að þetta var ekki í fyrsta sinn sem hann gekk frá henni eftir lestur. Hann gaf mér bendingu um að rétta sér kistilinn. Ég stóð upp úr gestagildrunni, eins og hann kallaði armalausa hægindastólinn sem var svo lágur og djúpur að sumir sátu lengur en þeir ætluðu því þeir áttu erfitt með að standa á fætur upp úr honum. Mér fannst hinsvegar gott að hvílast í stólnum. Það marraði notalega í svörtu og þykku nautsleðrinu þegar maður settist og ég átti ekki í neinum vandræðum með að spretta upp úr honum. Yfirsjúkraþjálfari virðulegs hjúkrunarheimilis verður að sýna gott fordæmi og halda sér í formi.
Ég sótti kistilinn og gekk með hann þessi fáu skref að rúminu sem stóð í horninu gegnt glugganum. Hann var glettilega þungur þrátt fyrir smæðina, var á stærð við kassa undan stórum barnsskóm, haganlega smíðaður úr dökklökkuðum harðviði með koparplötum á brúnum og hornum. Viðurinn í einu horni og loki kistilsins var mislitur og koparáfellurnar aflagaðar eins og þær hefðu verið við það að bráðna. Öldungurinn tók við honum og þrátt fyrir háan aldur átti hann ekki í vandræðum með að hantéra hann. Ef hann hefði ekki brotið á sér lærleggshálsinn eftir polkasólóið á þrettándagleðinni í fyrra hefði ég ekki haft neina ástæðu til að skipta mér af honum því hann var án efa sprækasta gamalmennið á landinu þrátt fyrir að hafa haldið upp á 95 ára afmælið sitt nýliðinn jóladag.
Hann opnaði kistilinn og þaðan sem ég sat sýndist mér hann næstum tómur fyrir utan krumpað umslag sem lá ofan á einhverju svörtu og gljáandi. Gamli maðurinn fór sér að engu óðslega, tók umslagið upp og opnaði það, stakk bréfinu ofan í og veiddi svo upp úr því önnur tvö samanbrotin blöð. Hann lokaði og læsti kistlinum með einföldum járnlykli sem gekk að innfelldri skrá á framhliðinni, setti silfurkeðjuna sem lykillinn hékk á um háls sér og smeygði undir hálsmálið á þykku duggarapeysunni sem hann klæddist alla daga.
Hann leit upp og horfði í augu mér. Augnaráðið var friðsælt en samt einkennilega ágengt. Vatnsblá augun voru eins og heiðarlegir pollar á jökulsorfinni klöpp á grýttri heiði, og svo tær að manni fannst maður sjá til botns en um leið undarlega myrk eins og svargrátt klappargrjótið.
„Þú manst hvað ég heiti, er það ekki?“ Röddin var enn styrk og með viðfelldinni sönglandi en dálítið rám. Hann tók vel utan um orðin og talaði á hraða manns sem var löngu hættur að flýta sér. Auðvitað mundi ég það enda fá nöfn eftirminnilegri því þótt Jón sé eitt algengasta nafnið á Íslandi voru ekki margir sem hétu Jón Jón Jónsson. Fyrri Jóninn í höfuðið á afa hans og sá seinni í höfuðið á tveimur eldri bræðrum sem fæddust með árs millibili og dóu nokkurra vikna gamlir úr kíghósta og lungnafári. Foreldrar hans þrjóskuðust við og reyndu í þriðja sinn og þá lifði nafnið. Loks var hann kenndur við einn Jóninn í viðbót, föður sinn, sem sjálfur var Jónsson rétt eins og faðir hans og afi og líklega hefur þessi Jónakeðja náð aftur í árdaga.
Flestir hváðu þegar Jón Jón sagði til nafns og héldu að hann stamaði eða væri kominn með elliglöp en þeir læknuðust fljótt af því. Þykka, gráa duggarapeysan ein og sér skýrði ekki breiðan brjóstkassann og sveru upphandleggina því Jón Jón var tröllslega vaxinn og beinn í baki og vel á sig á kominn eftir ævilanga farmennsku og trilluútgerð allt fram undir nírætt og lét engan eiga neitt inni hjá sér. Hann lyfti kistlinum með annarri hendinni eins og ekkert væri.
„Þú kannski trúir því ekki, en afi minn blessaður fæddist árið 1810 og varð 105 ára gamall. Árið sem hann dó gaf hann mér þennan kistil í fimmtán ára afmælisgjöf, með því loforði að láta hann aldrei frá mér.“
Ég hef alltaf verið tregur til talna en það vildi svo til að aldur þeirra langfeðga hafði komið til tals á síðasta deildarfundi ársins, daginn fyrir gamlársdag, því þótt hár aldur þyki ekki beinlínis ferskar fréttir á hjúkrunarheimili þar sem meðalaldur heimilisfólks er yfirleitt um og yfir 85 ár þegar vetrarflensan er mátulega meinlaus, þá var langlífi Jóns Jóns og afa hans fremur óvenjulegt. Það tók mig því fremur stutta stund að átta mig á samhenginu, að samanlögð æfi þeirra tveggja spannaði rúm 185 ár og ég kinkaði kolli til merkis um mér hefði tekist að leysa reiknisdæmið. Jón Jón kímdi og á hægra gagnauga hans tók lítill fjörfiskur nokkra kippi eins og hann vildi stinga sér ofan í heiðarpollinn.
„Og þessi litla fjársjóðskista,“ bætti hann við, lagði kistilinn á hnén og bankaði stórum hnefa á lokið, „var alltaf í farteskinu hjá afa heitnum hvert sem hann fór og hún hefur líka fylgt mér um heiminn alla mína sjómannstíð. Sem betur fer er þessi kistuskömm mátulega stór og meðfærileg, annars væri ég löngu búinn að glata henni.“
Hann horfði á mig eins og hann byggist við svari en mér datt ekkert gáfulegt í hug. Hann brosti og hélt áfram:
„Þetta er ekki einhver samanrekinn kassi úr ómerkilegum tunnustöfum heldur vandlega smíðaður galdrakistill úr sérvöldum mahonívið. Fyrir tæpum hundrað og áttatíu árum kom ungur maður siglandi heim til Íslands frá Kaupmannahöfn með þennan litla kistil í farteskinu og þótt hann greiddi ekki mikið fyrir hann ef þá nokkuð, þá hefur hann verið mikið dýrmæti og sannkallaður hagleiksgripur þegar ungi maðurinn eignaði sér hann.“
„Þessi ungi maður, var það afi þinn?“
„Nei, afi blessaður eignaðist hirsluna ekki fyrr en fimmtán til sextán árum síðar og hafði þá ekki hugmynd um fyrri eigendur fyrir utan þann sem gaf honum kistilinn.“
„Og hver var þetta þá?“
„Góð spurning og svarið verður enn betra.“ Fjörfiskurinn við gagnaugað iðaði og ég vissi af ánægjulegri reynslu að það var fyrirboði um góða og mergjaða sögu.
Jón Jón brosti breiðar. Tönnunum hafði fækkað en framog augntennur í báðum gómum voru enn á sínum stað. Hann ætlaði sér greinilega ekki að svara spurningunni heldur rétti mér blöðin sem hann hafði fiskað upp úr umslaginu og flett í sundur. Þetta voru tvær síður, jafnlúnar og pappírsörkin sem hann hafði fyrst sýnt mér og með sömu brotlínum og ég sá strax að þær voru framhald af þeirri síðu. Blekið var sumstaðar byrjað að dofna og rithöndin dálítið stirð og stórkarlaleg en stafagerðin jöfn og skriftin vel læsileg. Orðfærið var ekki beinlínis nútímalegt en ég átti samt ekki í neinum vandræðum með að skilja innihaldið. Ég bjóst til að lesa textann þegar Jón Jón greip í hönd mér, kankvís á svip.
„Bíddu með lesturinn þangað til í kvöld. Þá skaltu koma þér þægilega fyrir í góðu næði og hella þér einhverju vermandi í glas. Þú verður ekki svikinn, þetta er mjög áhugaverð lesning.“
Ég hafði mínar efasemdir um það, iðrunarjarmið í bréfinu sem hann hafði rétt mér í upphafi var ekki beinlínis hvetjandi til áframhaldandi lesturs en ég ákvað að láta þetta eftir honum, braut arkirnar aftur saman og stakk í brjóstvasann á þjálfaratreyjunni. Hann kinkaði kolli ánægður á svipinn.
„Á morgun verður þú búinn að lesa þetta skriferí og ég verð tilbúinn með næstu síður. Allt er best í hófi og þú verður að taka þetta í smáskömmtum. Láttu mig þekkja það. Afi heitinn var næstum búinn að hræða mig frá sér þegar hann lét mig lesa þetta allt í einum rykk á sínum tíma.“ Jón Jón greip kistilinn og beygði sig fram til að stinga honum undir rúmið og kallaði til mín, kominn næstum hálfur niður á gólf eins og selur að stinga sér ofan í vök.
„Á ég ekki æfingatíma hjá þér seinni partinn á morgun?“
Ég jánkaði því, við höfðum orðið ásáttir um að hann kæmi í styrktarþjálfun fjórum sinnum í viku og fetaði sig fimm til tíu ferðir fram og til baka eftir æfingasalnum.
„Við sjáumst þá á morgun og ekki týna þessum blaðsnifsum. Þau eru dýrmætur hluti af Íslandssögunni!“
Ég spratt upp úr gestagildrunni og kvaddi. Ég hafði engar áhyggjur af honum þarna með höfuðið niðri við gólf því fyrstu vikurnar hafði ég kennt honum og þjálfað í að reisa sig upp af gólfi og setjast í stól eða sófa og hann hafði enn handstyrkinn til að koma sér á fætur ef þurfti. Síðan þá hafði þjálfunin verið á gönguhraða. Jón Jón var raunsæismaður og við höfðum strax í upphafi gert með okkur þegjandi samkomulag um að taka öllu með mátulegri ró. Hann var 94 ára þegar við lögðum á brattann og hvorugur okkar átti von á að hann héldi upp á fleiri afmælisdaga. Gönguferðirnar og styrktar- og jafnvægisæfingarnar gerðu hinsvegar sitt gagn og eftir því sem 95. afmælisdagurinn færðist nær lagði hann harðar að sér en ég gætti þess að hann hvíldi sig hæfilega á milli spretta. Á þessari vegferð kom í ljós að við áttum ágætlega skap saman, hann, þessi þrekni og veðurslegni sjóskildingur til áratuga og ég, einfaldi borgarbusinn með álkulegan háls og granna handleggi. Hann sagði ekki mikið af sínum högum og ævi til að byrja með en var þess forvitnari um mig. Eftir fyrstu vikuna vissi hann líklega meira um mig og mína ætt en ég sjálfur, svo slyngur var hann að veiða upp úr mér það sem honum þótti markvert. Ég var dálítinn tíma að átta mig á aðferðinni sem hann beitti en eftir að hafa fylgst með honum í sögustundunum í setustofunni og heyrt hvernig hann spjallaði við aðra heimilismenn í matartímum, sneri ég taflinu mér í vil og þegar 95 ára afmælisdagurinn rann upp á jóladag vissi ég fjölmargt um æfi hans og mögulega fleira en flestir hans samferðamenn. Reyndar var fæstum þeirra til að dreifa því þeir voru nánast allir löngu horfnir upp á heiðarnar þokuþrungnu sem aldrei skila neinum sem hverfa ofan í klapparpollinn sinn.
Þegar Jón Jón var ekki í endurhæfingu hjá mér eða úti á svölunum við matsalinn að fá sér súrefni í nös, eins og hann kallaði vindlasogið, þá sat hann gjarnan í setustofunni þar sem flestu heimilisfólkinu var fundinn staður milli máltíða. Hjúkrunarheimili hljómar eins og allir ráði sér sjálfir í eigin herbergi en það er bara glansmynd úr kynningarbæklingi. Raunin var, er og verður líklega ætíð sú að flestir lúta daglegri rútínu starfsfólksins og að loknum morgunverkum og hádegismat er þægilegast að hafa alla á einum stað fram að kaffitörninni því annars þarf starfsfólkið að fara aukaferðir inn á herbergin að sækja mannskapinn.
Á setustofunni leiddist hinsvegar engum sem á annað borð hafði heyrn og skilning því Jón Jón var ekki fyrr sestur í rauða flauelsstólinn við stóra gervipálmann í horni stofunnar en hann fór að segja sögur af ævintýrum sínum á sjó. Flest af því hljómaði ótrúlegt og jafnvel stórkarlalegt en samt gat maður aldrei verið viss því hann var flinkur að draga hina og þessa inn í söguna með því að spyrja um sitthvað sem þau mögulega könnuðust við og þannig fengu sögurnar ákveðinn sannindastimpil. Hann þekkti alla viðstadda með nafni og vissi flest um hagi þeirra og fortíð því hann gerði sér far um að setjast hjá þeim til skiptis í matar- og kaffitímum og spjalla. Þrátt fyrir lærbrotið fór hann allra sinna ferða um heimilið á sínum hraða, ýmist studdist hann við háa göngugrind sem hann gat hallað sér fram á eða rúllaði sér í léttum hjólastól sem ég hafði valið og stillt fyrir hann.
Mitt mottó í endurhæfingunni var að hjálpa heimilisfólkinu að sjá um sig sjálft því þessir litlu sigrar efldu sjálfstraustið og lýstu upp hversdaginn lengi á eftir.
Það var aldrei myrkur hjá hreystimenninu Jóni Jóni.
Ég var venju fremur lengi að ganga frá og loka endurhæfingardeildinni eftir spjallið við Jón Jón. Við höfðum áður setið og skrafað í holunni hans, eins og hann kallaði litla einsmanns herbergið sem hann bjó í, en eitthvað við þetta samtal var öðruvísi.
Mér fannst ég skynja einhvern sterkan undirtón, líkum þungum árnið í fjarska en einnig létti, eins og það að sýna mér iðrunarbréfið hefði verið honum erfið ákvörðun en líka sú rétta.
Klukkan var orðin sex þegar ég loks læsti dyrunum að deildinni og fór niður í lyftunni. Janúarfrostið var enn í tveggja stafa tölu og ég norpaði nokkra stund við að skafa héluna af rúðunum á litlu Fíat lúsinni minni. Bílsætið var kalt og ég stillti miðstöðina á mesta og heitasta blástur og ók af stað.
Jón Jón var undarlegur maður. Hann hafði eitthvert óskýranlegt aðdráttarafl þrátt fyrir öll árin eða kannski einmitt vegna aldursins, eins og tungl sem togar til sín geimfar sem fer of nálægt yfirborðinu. Ég brosti. Jón Jón, hann var 95 ára gamall og ég varla orðinn 28 ára. Og hverskonar nafn var Jón Jón? Kankvís svipurinn á honum stóð mér ljóslifandi fyrir augum þegar ég velti þessu fyrir mér á leiðinni heim.
Ég hristi höfuðið ósjálfrátt yfir þessum kjánalegu vangaveltum og reyndi að hugsa um stelpuna sem ég bauð heim skömmu fyrir jól en mundi ekki hvað hún hét og varla hvernig hún leit út. Ég hækkaði í útvarpinu til að dreifa huganum og fyrr en varði var ég búinn að leggja bílnum og kominn upp í litlu tveggja herbergja risíbúðina mína.
Eftir að ég hafði gengið frá í eldhúsinu, hent beinaleifunum af upphitaða steikta kjúklingnum sem ég keypti í kjörbúðinni fyrir helgi og hitað mér stóran bolla af kakói, settist ég í stofusófann og kveikti á sjónvarpinu. Það var nýr framhaldsþáttur að byrja, um ungan mann sem elti tónlistardrauma sína til stórborgarinnar og einhvern veginn tengdust krókódílaskór þessum löngunum hans. Ég var forvitinn því einhvers staðar í djúpinu fann ég óljósa þrá að ganga í mínum eigin krókódílaskóm.
Bréfið frá Jóni Jóni var í svörtu leðurtöskunni minni sem ég hafði lagt á sófaborðið og þótt ég hefði ákveðið með sjálfum mér að klára að horfa á sjónvarpsþáttinn var ég alltaf að gjóa augunum að henni. Ég tók töskuna og setti á gólfið við hlið sófans til að geta einbeitt mér að sjónvarpinu en loks gafst ég upp. Eitthvað togaði í mig og ég var ekki viss hvort það var forvitni um örlög bréfritarans eða þessi dulda ákefð sem ég skynjaði hjá Jóni Jóni þegar hann rétti mér bréfið.
Ég teygði mig í töskuna, dró upp bréfið og byrjaði að lesa.
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir iðandi bókaorma!

Höfuðlausn er söguleg skáldsaga og lýsir atburðum sem gerðust til samhliða sakamálinu alræmda sem endaði með síðustu aftökum á Íslandi. Sögumennirnir eru fjórir og eiga það sameiginlegt að heita Jón og burðast með sannleika sem þá hefur skort hugrekki til að opinbera.
Söguþyrstum býðst eintakið á 4.000 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Ef þú leggur við hlustir muntu heyra þakkar- og fagnaðaróp Jónanna fjögurra í heiðarþokunni!
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón