Höfuðlausn kom út í ágúst 2023 og er söguleg skáldsaga. Hér eru upphafskaflarnir úr bókinni.
Fyrirheit

Hann leyfði hestinum að fara fetið. Löng og ströng ferð var brátt á enda og hafði tekið hann næstum fjóra daga frá því hann skellti aftur hurðargarminum á kotinu í Fremri–Þröm, enda var hann einhesta og Blesi gamli ekki til stórræðanna. Ágústdagurinn var bjartur en brátt færi að dimma enda liðið nær náttmálum. Sem næmur og hrifgjarn unglingur unni hann síðsumarshúminu fullu af fyrirheitum en í dag vildi hann forðast að vera á ferli í rökkrinu. Þeir Blesi voru á ókunnum slóðum.
Hann hafði aldrei riðið norður Vatnsnesið og bóndinn á Stöpum, síðasta bænum áður en hann kæmist á áfangastað, hafði ráðlagt honum að ríða rösklega þar til hann kæmi að bæjarlæknum skammt vestan við bæinn. Það stóðst á endum og eftir hafa gefið Blesa tóm til að svala þorstanum notaði hann tækifærið síðasta spölinn að Illugastöðum til að fara í huganum yfir það sem hann ætlaði að segja.
Margt hafði gerst síðan þorradaginn örlagaríka. Hann hafði þraukað fram á vorið og þrælað sér í gegnum sauðburðinn sem var svo sem ekki mikið afrek með níu ær. Tvær höfðu ekki lifað veturinn og nágrannar hans veltu mikið vöngum yfir orsökinni, því þær voru vel feitar en virtust hafa þjáðst af innvortis blæðingum. Eftir að hann fann þá fyrri sóttdauða og uppblásna sá hann í hvað stefndi með þá seinni og flýtti sér að skera hana til að kjötið færi ekki til spillis. Kannski var þetta guðleg forsjón eftir allt sem á undan hafði gengið því hann fékk þó allavega nóg kjöt að éta.
Eftir að hafa rekið féð á fjall druslaðist hann til að taðbera á völlinn og sinna öðrum vorverkum en hafði litla döngun til að dytta að kotskriflinu eða neinu innanstokks. Hann hætti jökulböðunum eftir jarðarförina, það var eins og úr honum væri allur vindur í þeim efnum en í staðinn sat hann löngum stundum í kvöldrökkrinu og brenndi niður hvert tólgarkertið eftir annað og ritaði uppkast að frelsunarorðunum, fjallræðunni miklu sem hann vissi að myndi snúa villuráfandi sálu Agnesar á rétta braut. Á veginn til hans. Og hér tækju þau fyrsta skrefið, saman.
Sólin var að setjast þegar hann reið í hlað á Illugastöðum. Hann hafði valið dagsetninguna af kostgæfni og naut þar brennivínsþorsta Lalla laups. Karltuskan hafði veigrað sér að halda á heiðina því það var altalað að húsfreyjan á Fremri– Þröm gengi ljósum logum allar myrkar nætur og gréti barnsmissinn og örlög sín. Laupurinn tók því enga áhættu þegar myrkravöldin voru annarsvegar og lét ekki sjá sig fyrr en snemma í júní. Hann leysti vel frá skjóðunni eftir tvö staup og bóndinn fékk þær upplýsingar sem hann þurfti. Paradísarormurinn yrði að heiman allan seinnipart ágúst til að sinna Guðrúnu á Þingeyrum. Hann átti að hafa læknað hana nokkrum misserum fyrr og fór alltaf reglulega til að hnoða í lyfjagutl því hún hafði hann í hávegum eftir meinta lækningu og gerði vel við hann þegar hann vísiteraði. Það ískraði í Lalla þegar hann sagði þessar fréttir því altalað var að Björn, maður Guðrúnar væri kokkálaðasti maður sveitarinnar og meira að segja svo bláeygur að borga kuklaranum fyrir greiðann við frúna.
Þetta voru verðmætar upplýsingar því þá gat bóndinn verið viss um að einungis Agnes og stelputrippið sem þóttist vera ráðskona væru í bænum þegar hann kæmi. Hann hafði ekki séð Agnesi eftir að hann fór frá Geitaskarði árið áður og fann til ónota neðan þindar. Hvað ef hún þekkti hann ekki eða vildi ekki tala við hann?
Hann tók af sér trefilinn og hneppti frá sér snjáðum jakkanum, steig af baki og hlýddi sér í þúsundasta skipti yfir fjallræðuna í huganum meðan hann sinnti klárnum. Enginn var á ferli en út um opnar bæjardyrnar heyrði hann tvær kvenraddir hafa hátt fyrir innan. Þegar hann hafði sprett af hestinum, gripið hnakktöskuna og bjóst til að fara inn í kotið heyrðist dynjandi hófagnýr norðan við bæinn, sem hefur borist inn því ung stúlka kom hlaupandi út um dyrnar og ætlaði að stökkva í fang hans en áttaði sig í tíma og starði á hann opinmynnt.
„Þú ert ekki Friðrik!“ Í sömu mund kom reiðmaðurinn fyrir hornið á bænum og greip í taumana á hesti sínum svo hann prjónaði, stökk fimlega af baki og kallaði á stúlkuna sem hljóp á móti honum.
„Sigga mín, litla ráðskonan mín, ég er kominn. Ég lagði af stað um leið og ég fékk skilaboðin.“ Þau féllust í faðma og létu sem þau sæju hann ekki. Honum féllust hendur. Hvaða maður var þetta? Og hvað var hann að gera hingað á Illugastaði? Augljóslega var hann kunnugur ungu stúlkunni og það all vel af atlotunum að dæma.
„Og enn stendur þú eins og tröll að morgni!“ var sagt að baki honum.
Hann snerist á hæl. Í dyrunum á Illugastöðum stóð Agnes og um varir hennar lék órætt bros. Hann horfði á hana með brennandi þorsta í augum, álfadísin með húmsvörtu fléttuna og tærbláu augun hafði yrt á hann og brosað til hans! Fjallræðan var gleymd og honum kom ekki orð í hug, svo hugfanginn varð hann af þessari opinberun.
„Þú segir ekki margt frekar en síðast.“ Hún hnykkti höfðinu til Siggu og Friðriks sem gengu hönd í hönd fyrir bæjarhornið teymandi hestinn á eftir sér. „Þá erum við laus við unglingana. Þú hlýtur að vera þyrstur, má ekki bjóða þér mysu eða vatnssopa?“
Hún beið ekki svars heldur sneri sér við og gekk inn í bæinn. Bóndinn á Fremri–Þröm hafði enn ekki sagt orð og elti hana eins og hlýðinn hundur en hafði samt rænu á að beygja 68 sig eftir hnakktöskunni sem hafði runnið af öxl hans þegar Agnes birtist honum.
Bæjargöngin voru dimm og teygðu sig inn allan bæinn. Strax á hægri hönd þegar inn var komið var skáli þar sem tólgarkerti brann í stjaka á borði sem stóð á miðju gólfinu og innan við dyr skálans hékk logandi ljósker. Agnes benti honum að setjast við borðið og fór aftur fram og inn göngin að eldhúsinu innar í bænum og kom að vörmu spori með tvær leirkrúsir og trékönnu. Hún setti krúsirnar á borðið og fyllti þær af kaldri mysu úr könnunni, rétti honum aðra þeirra, lagði könnuna frá sér og settist með sína krús hinum megin borðsins. Hann kom ekki upp einu orði og hélt dauðahaldi um krúsina eins og hálmstrá hrapandi manns. Hún virti hann fyrir sér. Brosið lék um varir hennar en úr augunum skein forvitni í bland við rósama íhygli konu sem vissi hvað hún vildi og þóttist hafa það í hendi sér.
„Ef ég ætti mér leyndarmál þá myndi ég trúa þér fyrir því,“ sagði hún og hló lágt. „Þú talar ekki af þér,“ bætti hún við eins og til útskýringar. Bóndinn snöggreiddist innra með sér. Hún heldur að ég sé fífl, hugsaði hann. Jafnskjótt róaðist hann og brosti á móti, auðvitað gat hún ekki vitað betur, kvensálin var einföld og hrein og laus við allt fals. Það var hlutverk karlmennsku hans að leiða hana á brautir nýs lífs, vegferðar án Natans Satans. Loks fékk hann málið.
„Já, forláttu mér.“ Hann ræskti sig. „Ég skal geyma öll þín leyndarmál og fyrr fara tungulaus í gröfina en að anda nokkru þeirra út úr mér.“ Hún fór að hlæja.
„Þú ert skrýtinn og skemmtilegur. Ég þykist vita að þú sért Jón bóndi á Fremri–Þröm í Blöndudal. Við höfðum aldrei tækifæri til að kynna okkur í fyrrahaust.“ Hún rétti honum höndina yfir borðið. „Ég heiti Agnes Magnúsdóttir, ráðskona hér á Illugastöðum. Komdu sæll og vertu velkominn.“
Handtak hennar var þétt og lófinn dálítið hrjúfur og bar þess vitni að ráðskonuhandtökin voru mörg og misjöfn. Samt var höndin kvenleg og í lófa hans var hún sem glóandi járn sem brenndi sig inn að beini en um leið kitlandi fjöður sem fyllti hann sjálfstrausti og andagift. Þetta var sælustund og fullnægjan flæddi í gegnum hann, hann trúði varla að hann héldi í höndina á huldumeynni fyrirheitnu, forboðna ávextinum í aldingarði Drottins þótt þetta Illugastaðagreni líktist ekki Eden að neinu leyti. Yfirkominn bar hann hönd hennar að vörum sér og kyssti hlýjum kossi. Nú rifjaðist fjallræðan upp fyrir honum, skýr eins og rituð með fingri Guðs á skálaþilið. Hann ræskti sig aftur og bjóst til að hefja lesturinn þegar hún reyndi að losa handtakið. Hann vildi ekki sleppa.
„Þú ert svei mér handsterkur,“ sagði hún og togaði fastar. Brosið var horfið og þegar henni loks tókst að losa höndina stóð hún á fætur og færði sig frá borðinu. Hann áttaði sig á mistökunum en of seint. Loftið í skálanum varð mollulegt og moldarlyktin sem hann hafði varla tekið eftir varð þung og þykk og hann sundlaði næstum. Agnes krosslagði handleggina og horfði fast á hann.
„Agnes,“ byrjaði hann. Fjallræðan bögglaðist fyrir honum en hann setti allan sinn vilja í hlýlegt bros til að endurheimta traustið og hugsanirnar létu sér segjast og skipuðu sér í rétta röð. „Agnes, hamingja þín og sálarheill er mér allt og hefur verið alveg frá því ég sá þig fyrst á hvítasunnunni í fyrra.“ Hann dró andann djúpt og röddin varð styrkari. Það dró úr moldarfýlunni.
„Þú ert hrein og saklaus fyrir augliti Guðs almáttugs og allar þínar syndir eru forlátnar af Drottni sjálfum sem elskar þig takmarkalaust um alla eilífð og öll þín mistök eru skiljanleg því lævísi Natans, ég meina Satans …“ Bóndinn bölvaði sjálfum sér fyrir mistökin og horfði nú næstum biðjandi á Agnesi sem hafði látið hendurnar síga og starði á hann. „… þess fallna engils,“ hélt hann áfram óðamála, „er óútreiknanleg og illgjörn, hann er að reyna að leiða þig af vegi Drottins sem elskar þig svo heitt og innilega og bara ef þú myndir meðtaka gæsku hans og opna hjarta þitt fyrir mér … honum, vildi ég segja, það sko …“ Þetta var ekki fjallræðan eins og hann hafði þulið upp fyrir sjálfum sér í dimmu kotinu. Hann reyndi hvað hann gat að muna hvað kæmi næst en Agnes hafði fengið nóg.
„Hvað er að þér maður? Hefurðu dottið á höfuðið?“ Hún færði sig enn fjær honum og hann sá að hún gaut augunum að stórum járnbentum göngustaf sem tyllt var í hornið við dyr skálans. Hann fylltist bæði hryggð og hamslausri reiði. Hún var hrædd við hann. Hann! Sjálfan frelsara hennar, sem hafði þolað sálarkvalir og eiginkonumissi og jafnvel andlát frumburðarins, endalaus jökulböð og, og, og …
Hann stóð upp, tók skref að dyrunum þar sem göngustafurinn stóð, greip hann og henti fram í bæjargöngin. Agnes hörfaði innst í skálann. Bóndinn dró djúpt andann. Hún var hrædd við hann! Nú reið á að róa sig, annars myndi honum ekki takast að losa klær djöfulsins úr holdi hennar. Hann reyndi að brosa hughreystandi.
„Agnes, ekki vera hrædd, ég vil þér ekkert illt. Forláttu mér ef ég er of ákafur en þetta er mér slíkt hjartans mál að ég á stundum erfitt með að ráða við mig.“ Hann gekk aftur að stólnum og settist, hvíldi olnbogana á borðinu og spennti greipar. Honum tókst að tala rólega.
„Það sem ég er að reyna að segja er að þú ert ekki óhult hér, á þessum bæ, í vinnumennsku hjá þessum manni. Hann mun særa hjarta þitt og valda þér óhamingju og vonbrigðum. Ég er kominn til að bjarga þér … ég meina, til að bjóða þér annan valkost.“
Við að heyra sjálfan sig segja þetta upphátt áttaði hann sig á um hvað þetta snerist allt saman. Þessi sál, þetta fórnarlamb Satans, þessi saklausa kona sem hann þráði að frelsa var eftir allt saman konan sem hann elskaði! Þessi hreinlífa og guðsbiðjandi kona, Agnes, lamb guðs, var ástin hans. Það rann af honum girndaræðið, þetta holdlega, óhreina, synduga sem jafnvel jökulböðin höfðu ekki megnað að hreinsa. Hann fylltist ógeði á sjálfum sér, hvernig hann hafði lagst með skepnum jarðarinnar og syndgað með nafn hennar á vörum í holdlegri reisn þvert á allt … Hann sundlaði. Hún var hans, hún var ástin hans í guði!
Hann hafði aldrei fundið þessa tilfinningu gagnvart vesalings stelpunni sem fraus í hel í baðstofunni á Þröm með blóðuga tusku í klofinu en núna, núna fannst honum sem einhver fögnuður í brjósti hans þyti um allar æðar og taugar, út í alla útlimi og upp í höfuð, svo kitlandi og upplyftandi að hann langaði til að standa á fætur og dansa og hrópa af gleði og …
Agnes horfði á hann, hún hafði ekki sagt orð meðan hann hélt þessa einræðu, heldur staðið grafkyrr með aðra höndina að hálsi en hina um mittið. Hún var rólegri en samt tilbúin ef hann skyldi taka upp á einhverju. Hún spurði og það vottaði fyrir hæðni í röddinni:
„Og hvað mun þessi Satan gera mér ef ég ákveð að vera hér um kyrrt?“
„Eins og ég sagði, hann mun spilla lífi þínu, það er í hans eðli að svíkja allt sem hann lofar. Drottinn forláti mér, en hann er í sannleika djöfull í mannsmynd.“ Hann beit í vörina, kannski hefði hann ekki átt að taka svona sterkt til orða, því af einhverri ástæðu var hún hér á Illugastöðum en ekki í vinnumennsku á Geitaskarði. Það rifjaðist upp fyrir honum að hún sagðist vera ráðskona. En hvað hafði strákurinn sagt þegar hann stökk af baki? Gátu verið tvær ráðskonur á einum bæ?
„Var hann kannski búinn að lofa þér ráðskonustöðu hér á Illugastöðum?“ Hann sá að þetta kom við hana því hún roðnaði og krosslagði handleggina en samt hélt hann áfram.
„Hvernig getið þið báðar ráðið hér innandyra? Eða ræður þú í eldhúsinu og hún í svefnherberginu?“ Þetta var kuldalegt af honum, hann skynjaði það því munnsvipur Agnesar varð hörkulegur, en kannski var þetta aðferðin sem dugði, að sá fræjum efans eins og höggormurinn í … Nei, hann gat ekki hagað sér eins og Edenssnákurinn, sá fjandi var illur en hann var góður, hann vildi vel, hann vildi Agnesi.
„Forláttu mér, Agnes, þetta var ekki fallega sagt. Ég vil þér ekkert nema gott og get boðið þér alvöru ráðskonustöðu á eigin bæ, þú yrðir húsfreyja og réðir öllu sem þú vildir og við yrðum …“
Hann áttaði sig og þagnaði. Kannski hafði hann sagt of mikið. Hann var farinn að iðrast þess að hafa komið. Samt, var hann ekki hér til að bjarga henni? Hafði hann ekki lagt í margra daga ferðalag, bara til að vara hana við þessum djöfulsormi? Hann var orðinn heitur í framan og leit upp. Það fóru brosviprur um andlit Agnesar. Hún færði sig að borðinu, hafði það á milli þeirra og settist gegnt honum. Það skein samúð úr augum hennar.
„Ég heyrði hvernig fór fyrir konunni þinni og barninu ykkar, það var hræðilegt. Ég samhryggist þér innilega.“ Röddin var full hluttekningar. „En ég hef lofað mér hér á Illugastöðum, að minnsta kosti fram að næstu vistaskiptum og þú veist að fólki eins okkur leyfist ekki það sem okkur langar.“ Hann seig niður í sætinu en var samt ekki vonsvikinn. Hún hafði nefnt næsta vistaskiptadag sem var ekki fyrr en næsta vor en tíminn 74 yrði fljótur að líða þegar slík náð beið hans.
„Viltu þá koma, ég meina, í vor? Er það möguleiki að þú … ?“
Hún stóð á fætur og sneri sér frá honum í smástund en leit svo við og horfði beint í augu hans.
Það er margt sem ég hef þráð og mörg vonbrigðin sem ég hef þolað. Natan,“ og hér brá fyrir glettnislegu brosi því hún sá að hann kipptist ósjálfrátt við þegar hún nefndi nafn hans. „… Natan,“ hélt hún ákveðið áfram, „lofaði mér ráðskonustöðu og ég hef ekki neina ástæðu til að véfengja vilja hans í þeim efnum, hvað sem einhver kann að gaspra í þín eyru.“ Hún teygði sig í mysukönnuna og fyllti á krúsirnar. „Hann er sá fyrsti sem kemur vel fram við mig og sér í mér þá konu sem ég er og vil vera.“ Hún fékk sér sopa og hugsaði sig um og hélt svo áfram.
„Þú virðist vera góður maður, kannski dálítið ákafur en einlægur. Þú ert í raun að bjóða mér eiginorð og það er,“ og nú brosti hún innilega og hann fann hjartað taka stökk í brjósti sér, „… það er sannarlega í fyrsta skipti sem einhver sýnir mér þann heiður.“ Agnes hló lágt. „Ég vil ekki valda þér vonbrigðum eða að þér finnist þú hafa farið erindisleysu langan veg, svo hvað finnst þér um að í staðinn fyrir þvert nei við þessu frumlega bónorði, þá gefi ég þér endanlegt svar í maí?“ Hún brosti svo skein í hvítar tennurnar.
Honum varð svarafátt en smám saman rann það upp fyrir honum að hún hafði ekki neitað honum, sem þýddi að hún gæti alveg hugsað sér að verða konan hans og búa með honum á Fremri–Þröm sem húsfreyja með húsbónda, eins og kona með manni og, og … Það þyrmdi yfir hann, hann fann tár renna niður kinnarnar og kreisti aftur augun til að hindra að gáttirnar brystu þegar hann fann hönd hennar strjúka þau af vanga hans. Hann opnaði augun. Augnaráð hennar var blíðlegt og þarna áttu þau saman stund sem honum fannst vara heila eilífð en eftir andartak lagði hún hendurnar á borðið og spennti greipar. Hún talaði ákveðið og mynduglega:
„Það er enn ratljóst og ég held að það sé best að þú farir núna strax og beiðist gistingar að Stöpum áður en dimmir meira. Það gæti valdið óheppilegu umtali ef það fréttist að ókunnur maður hafi gist einn í húsi hjá tveimur konum …“ sagði hún með glettnisbrosi. „Það gæti líka haft áhrif á tiltekna ákvörðun næsta vor.“
Hann skildi hvað hún meinti og fann fyrir ákveðnum létti. Að taka svona af allan vafa var gott fyrir þau bæði. Hann fann fyrir meiri sálarró en hann hafði gert lengi, eitthvað hafði greiðst sundur í huga hans og hann sá allt miklu skýrar. Hann var ástfanginn af þessari sterku konu, svo einfalt var það. Hún þurfti enga frelsun, engrar sálubjörgunar eða að losna úr klóm eins eða neins. Hún ákvað sjálf hvað hún vildi. Það var hann sem hafði frelsast. Frelsast eins og refur úr gildru. Lífið framundan var bjartara og hann vonbetri en nokkurn tíma áður.
Hún tók krúsirnar og könnuna og fór með fram í eldaskálann, kom til baka með raka rýju og strauk af borðinu og það var augljóst á fasi hennar að hún vildi að hann færi sem fyrst. Hann hneppti að sér jakkanum og greip hnakktöskuna sem lá við hlið stólsins. Hnakktaskan! Hann lagði hana á borðið og losaði hespuna á lokinu og dró upp lítinn pakka, vafinn í snjáðan vaðmálsbút.
„Þetta er fyrir þig Agnes. Alveg sama hvernig fundur okkar hefði farið, þá langaði mig að gefa þér þetta.“ Hann brosti angurvært, það sem áður átti að lokka hana til frelsunar varð að fyrstu brúðargjöfinni. Agnes tók hikandi við vaðmálsbögglinum, lagði hann á borðið og fletti í sundur. Hún tók andköf. Á klæðisrifrildinu lágu sex silfurmillur, skínandi fægðar og glitruðu í skini kertanna í stjakanum á borðinu. Þær voru móðurarfur hans og það var fyrir hálfgerða tilviljun að þær höfðu ekki glatast strax eftir andlát hennar. Hún hafði eignast hann í lausaleik og þrjóturinn, hórkarlinn faðir hans sem blessunarlega drukknaði hálfu ári síðar, hafði ginnt hana til samræðis eftir að hafa gefið henni þessar millur. Móðir hans dó skömmu eftir barnsburðinn en systir hennar fóstraði hann í sex ár og geymdi millurnar og það stóðst á endum að þegar hún lá banaleguna var hann að festa sér stelpuræfilinn til eiginorðs og móðursystir hans kom millunum til hans með þeirri ósk sinni að þær yrðu brúðargjöf eiginkonu hans. Helst hefði hann viljað selja silfrið því búskapur kostar, ekki síst kotbúskapur en hann var stoltur og þótti auk þess mjög vænt um þessa frænku sína því hún kenndi honum að lesa og skrifa og gaf honum Vajsenhúss smákver Nýja testamentisins, sem hann las daglega og kunni nánast utanbókar. Nú var hann að uppfylla þessa ósk frænku sinnar, því þótt einhver prestsluðra hefði básúnað yfir honum og stelpunni þá var fyrra ektastandið ómark. Hann og Agnes hinsvegar, hún hafði gefist honum og kæmi til hans næsta vor og það var heilagt hjónaband undir augliti og með velþóknun Guðs og þurfti ekki mannanna staðfestingar við. Agnes var hans eigin kona og silfurmillurnar voru brúðargjöfin hennar.
„Ertu alveg frá þér, maður!“ sagði hún andstutt en glöð. Hún handlék millurnar af lotningu, raðaði þeim í einfalda röð, svo í hring og loks þremur á móti þremur eins og hún væri strax farin að sjá þær fyrir sér á upphlut. Hún laut höfði, safnaði millunum varlega saman og vafði vaðmálinu utan um þær og leit upp. Það skein eitthvað undursamlegt úr augum hennar.
„Þú ert góður maður, Jón bóndi. Hjartans þakkir.“ Hún beygði sig yfir borðið og smellti snöggum kossi á skeggjaða kinn hans. „Farðu nú áður en ég siga hundunum á þig!“ bætti hún við glettnum rómi en hann fann að hún var hrærð þótt hún reyndi að láta það ekki sjást. Hann brosti á móti, lokaði hnakktöskunni og slengdi yfir öxlina á sér, gekk út bæjargöngin og út á hlað. Blesi leit upp og hneggjaði þegar hann birtist. Það var orðið allrökkvað en hann myndi samt ná að Stöpum fyrir nóttina. Hann beislaði hestinn og spennti á hann hnakkinn, batt hnakktöskuna fasta og steig á bak. Agnes stóð í dyrunum og fylgdist með. Hvorugt þeirra sagði orð. Hann sneri hestinum, leit snöggt á Agnesi, brosti og veifaði í kveðjuskyni. Hún brosti á móti.
Hann hvatti hestinn sporum og reið hratt út í umvefjandi ágústmyrkrið. Það var heiðskírt og nýtt tungl, honum leið undarlega, hann fann ekki fyrir hreyfingum hestsins, hugur hans lyftist og hann teygði sig upp í stirndan himininn eftir glitrandi gimsteinunum sem lýstu honum leiðina. Hann var fullur barnslegrar undrunar og tilhlökkunar. Allt var breytt, allt var nýtt. Agnes! Þú verður konan mín og ég verð maðurinn þinn. Við verðum hjón.
Agnes og Jón!
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir iðandi bókaorma!

Höfuðlausn er söguleg skáldsaga og lýsir atburðum sem gerðust til samhliða sakamálinu alræmda sem endaði með síðustu aftökum á Íslandi. Sögumennirnir eru fjórir og eiga það sameiginlegt að heita Jón og burðast með sannleika sem þá hefur skort hugrekki til að opinbera.
Söguþyrstum býðst eintakið á 4.000 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Ef þú leggur við hlustir muntu heyra þakkar- og fagnaðaróp Jónanna fjögurra í heiðarþokunni!
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón