Júlí hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um besta erótíska handritið og Lárus Jón er fyrsti handhafi Orkídeunnar. Bókin kom út í febrúar 2024. Hér er upphafskaflinn.
1.

Hann lygndi aftur augunum.
Grannir fingurnir runnu gegnum stuttklippt hárið, struku ennið og gagnaugun, niður vangana og undir kjálkabörðin. Snertingin var létt, varla greinanleg en samt þrungin tilfinningu sem kitlaði og örvaði og hríslaðist niður allan líkamann og safnaðist á einn stað. Heitur andardráttur bærði dúnhárin í hnakka hans. Hann hallaði höfðinu fram í unaðsfullri væntingu. Mjúkar varir kysstu ofurlétt á hálsinn, ákafir armar vöfðu hann og þung brjóstin þrýstust að honum svo fast að stinnar og harðar geirvörturnar skildu eftir ljúfsár för.
Hann andvarpaði. Sælubrosið breikkaði því nú færðust fingurnir niður eftir bringunni og spenntum kviðnum þangað sem allt leitar að lokum og upphafið að endinum býr sig undir útrás eins og þrútinn fræsekkur sem bíður eftir að bresta og spýta framtíðinni yfir allt. Fingurnir teygðu sig niður fyrir kviðinn og inn undir buxnastrenginn og snertingin var honum næstum því um megn. Hann spenntist allur af óþreyju og löngun, færði fótleggina í sundur og hallaði höfðinu aftur og beið, beið eftir lokahnykknum.
Hann var rétt ókominn á toppinn þegar dyrnar opnuðust og júlísólin æpti inn um þrönga gættina á litla kartöflukofanum og brenndi sig í gegnum augnlokin.
„Hvern djöfulinn ertu að drolla, strákandskoti? Hunskastu ofan af kartöflupokunum og hypjaðu þig út að reyta arfann, helvítis pungurinn þinn.“
Verkstjórinn hnussaði og sparkaði í fætur hans þar sem hann lá á stafla af tómum strigapokum með hendurnar í klofinu og aulagrettu á andlitinu. Verkstjórinn glotti og strunsaði út og það tók hann nokkra stund að hrista af sér draumlíka tilfinninguna en þungur moldardaunninn í niðurgrafinni kartöflugeymslunni fyllti öll skilningarvit og loftaði út það sem eftir var af sæludraumnum. Hann staulaðist á fætur, dasaður með raka í nærbuxunum og greddukláða í hausnum sem engin leið var að klóra burt.
Hvergi sást ský á lofti, sólin tróndi í hásuðri og matartímanum var formlega lokið. Spark Jónasar verkstjóra staðfesti það. Hann rétti úr sér eftir að hafa smeygt sér út um lágar dyrnar, geispaði stórum og leit í kringum sig. Skammt frá jarðhýsinu teygði sig langur og breiður kartöflugarður út yfir melinn, með hálfvöxnum grösum sem voru að kafna í kraftmiklum arfa sem brúskaðist kringum hvert kartöflugras eins og klofhár um reistan …
Hann var aftur rifinn úr draumheimum þegar verkstjórinn gekk að honum og rétti honum arfaklóru og trédall. Jónas var rauður í framan og ekki eingöngu af sólbruna. Grannur sleftaumur rann úr öðru munnvikinu niður hökuna. Hann var eins og hross sem riðið hafði verið í spreng, sveittur og úfinn.
„Stattu ekki þarna eins og auli, grjónapungur. Þú færð ekki greitt fyrir að góna út í loftið!“
Sigurjón þagði, tók við klórunni og dallinum, rölti að öðrum enda garðsins og kraup við óhreinsað beð, setti dallskriflið niður og byrjaði að krafla í lífsglaðan arfann. Sumar jurtir lifa samlífi án árekstra en arfinn vildi meira, hann þyrsti í næringu og rými og var ófeiminn við að troða öðrum um tær. Hann umvafði nágranna sína af úthugsaðri uppgerðarumhyggju eins og útsmoginn elskhugi og hætti ekki fyrr en hann hafði náð markmiðum sínum. Heimsyfirráð eða dauði, ekkert annað komst að í lífi þessa græna gróðurteppis sem kæfði allt.
Hann reitti arfann með hálfum huga því hann hafði samúð með þessu frumstæða lífsformi sem gerði bara það sem því var áskapað. Lífið þurfti ekki að vera svona flókið, eða hvað? Enda hafði þessi arfatínsla enga þýðingu því eftir ítarlega hreinsun á kartöflubeðunum spratt upp ný kynslóð lífsþyrstra arfasprota sem breiddi úr sér hraðar en Sigurjóni og félögum hans tókst að kraka burt. Náttúran lætur ekki að sér hæða og til hvers að berjast á móti eðlishvötinni?
Hann leit í kringum sig. Jónas stóð í miðjum kartöflugarðinum að skamma hina starfsmennina. Hópurinn var ekki stór, þrír strákar um tvítugt og tvær nítján ára stelpur og svo hann, elstur, rétt rúmlega tuttugu og tveggja ára. Jónas var ábyggilega hundrað ára, að minnsta kosti var inni í honum afgömul sál því hann gerði ekki annað en að úthúða hópnum fyrir leti, heimsku og almennan ungæðishátt. Rauður lubbinn og úfnir bartarnir létu hann líta út eins og litlu plasttröllin sem Sigurjón hafði eitt sinn fundið á einhverjum nytjamarkaði. Meira að segja stærðin passaði því Jónas hafði annað hvort ekki fengið nóg að borða í æsku eða einhver hafði stýft neðan af fótleggjum hans. Hann var á hæð við ungan dreng í líkama gamals manns.
Hann hélt áfram að róta í beðinu. Arfinn lét undan klórunni og vafðist í flækju utan um gaddana svo hann þurfti að stoppa af og til og hreinsa tindana. Moldin var rök eftir gróðrarskúrir síðustu daga en byrjuð að þorna í miskunnarlausu sólskininu sem hitaði loftið undir kartöflugrösunum og arfadyngjunum. Hann hafði gleymt vinnuvettlingunum í kartöflugeymslunni enda erfitt að láta sig dreyma um lipra fingur með molduga og þykka hanska á höndum og nú voru þessar sömu hendur orðnar skítugar með sorgarrendur undir nöglum og arfaklístur á fingrum.
Þetta var hundleiðinlegt starf en hvaða kosti hafði hann? Hann kunni ekkert, var fallisti úr grunnskóla með sjálfstraustið í núlli og hafði falið sig í kjallaranum hjá minnisskertri ömmu sinni síðustu ár og eytt dögunum í að lesa sig í gegnum bókaskápinn í stofunni hjá henni. Skápurinn var fullur af „kerlingabókum“ en honum fannst þær skemmtilegar, nokkuð sem enn frekar skar hann úr samfélagi jafnaldra hans. Lestur var eiginlega það eina sem hann kunni. Strax fjögurra ára var hann orðinn vel læs og byrjaður að gleypa í sig allt sem hann fann með bókstöfum á. Foreldrar hans voru fyrst stoltir og glaðir en þar sem hann hafði ekki verið jafn bráðger í reikningi og skrift fór þetta að breytast í vandamál því hann vildi miklu fremur liggja heima í stofusófanum og lesa en að fara í skólann og gera leiðinlega hluti. Hann fór í viðtöl við sálfræðinga og námsráðgjafa, var píndur til að sitja í skólastofunni og foreldrar hans sátu með honum, bæði þar og heima, til að berja í hann lærdóminn. Allt kom fyrir ekki og hann lauk grunnskólanum án þess að taka próf en hafði í staðinn lesið allan bókakost skólabókasafnsins og var langt kominn með hillurnar í bókasafni bæjarins og það skrýtna var að hann mundi allt sem hann hafði lesið. Þegar skólakerfið hafði sætt sig við stöðu mála var reynt að stýra vali hans á bókum og öðru lesefni en hann var alæta en um leið vandfýsinn. Ef lesturinn vakti ekki áhuga hans eftir fyrstu tuttugu til þrjátíu síðurnar þá fór bókin miskunnarlaust í ruslbunkann og hann greip þá næstu. Langflestar „heppilegu“ bókanna, sem reynt var að halda að honum, fóru beint í bunkann og fljótlega gáfust foreldrar hans og skólinn upp á að beina honum í æskilegar bókmenntaáttir.
Skápur ömmu hans varð honum opinberun því þrátt fyrir fjölbreyttan bókakost bókasafnanna þá komst úrvalið þar ekki nálægt þeim regnboga sem hann fann í skápnum í stofunni. Þessi móðuramma hans tók hann að sér eftir að foreldrar hans létust í bílslysi fyrir níu árum. Hann var einkabarn og móðurafi hans og föðurforeldrar löngu dáin og þau langmæðginin sátu uppi hvort með annað. Amma hans var þekkt kvenréttindakona og femínisti og hafði rutt brautina fyrir kynsystur sínar í öllum meginstraumum kvenleika, kynvitundar og mótþróa gegn karlpungum á öllum aldri. Hún hélt námskeið fyrir konur sem aldrei höfðu þorað að skoða sína neðri hæð, kenndi meðferð og notkun sértækra rafmagnstækja fyrir þær sem vildu ekki líkamlegan félagsskap í þeim efnum og var framarlega í uppeldisstefnum og lífskúnst ungra sem eldri kvenna. Að fá Sigurjón lestrarljón óumbeðið í hausinn setti nokkur strik í þessa starfsemi og daglegt líf hennar og ef hana hefði ekki byrjað að þrjóta andlegt örendi skömmu síðar er óvíst hvernig sambúðinni hefði farnast. Hann var góður við ömmu sína, hjálpaði henni við heimilisstörfin, skaust út í búð eftir mat og lyfjum og öðrum nauðsynjum og þegar hún fór að þurfa persónulegri aðstoð var hann heimahjúkruninni til aðstoðar. Þess á milli lá hann í bókum frá morgni til kvölds.
Bakgrunnur ömmu hans og arfleifð fólst í bókum um allt sem viðkom konum. Bækurnar voru á öllum tungumálum og ljósmyndaminni hans gerði honum auðvelt að læra nóg í hverju máli til að skilja samhengið. Stundum voru efnistökin augljós því margar bókanna voru ríkulega myndskreyttar og ekki þurfti skýringartexta fyrir jafn minnugan lesfíl og Sigurjón. Hann nánast drakk þetta í sig og núna, ári eftir að amma hans féll frá og lét honum eftir íbúðina og bókaskápinn, var hann líklega sá karlmaður landsins sem mest vissi og kunni um leyndardóma kvenlíkamans og sálarlíf hins fagra kyns. En hann hafði ekki hugmynd um hvar hann fyndi vinnu þar sem þessi þekking kæmi að notum. Og því sat hann nú í moldarryki undir gargandi sól og sleit upp saklausan arfa undir úrillu augnaráði rauðhærðs skítalubba með steingerða kartöflu í rassgörninni og sem gerði fátt annað en að bölva honum fyrir ástand heimsmálanna í kartöflugarðinum.
Var þetta framtíðin sem beið hans?
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir iðandi erótíska bókaorma!

Júlí er erótísk skáldsaga eða nóvella og lýsir hormónalífi ungs, leitandi manns , vegferð hans um rakan frumskóg kvenlíkamans og markmið hans að fullnuma þá list að gera konur hamingjusamar. Nóvellan hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um besta erótíska handritið og Lárus Jón er fyrsti handhafi Orkídeunnar. Forlagið Hringaná stóð fyrir keppninni.
Hamingjuleitandi áhugafólki um iðandi erótík býðst eintakið á heitar 3.500 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Skiljið bókina eftir á glámbekk því fátt kætir og bætir lífið eins og skapandi orð unaðar og kitlandi langana.
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón