Ljúflingsljóð segir af æsilegu ævintýri Ljóðálfs ljúflings á húmhlýju ágústkvöldi í hraunbolla í Hafnarfirði. Kvæðabókin kom út 2014 og segja má að þetta sé lítil ríma um lífið og tilveruna í hafnfirska hrauninu. Vísurnar eru alls 41 og hér eru fyrstu tuttugu.
Ljúflingsljóð
1
Í hlýlegu hrauninu
húmkvöldin löng.
Ljóðálfur ljúflingur
ljóðin sín söng.
2
Sællegar sólflugur
suðuðu milt.
Svefnhöfga sveipaði
sólsetrið gyllt.

3
Kvikfættar köngulær
kúrðu í vef.
Hláturmild hagamús
hummaði stef.
4
Góðhjörtuð Gleym-mér-ei,
glitrandi blá,
breiddi yfir blómálfinn
blöðin sín smá.
5
Ljóðálfur ljúflingur
ljóðstafi dró.
Hýrleg í húminu
hamingjan bjó.
6
Hljóð oní hraunbolla
horfði þar á.
Klóbeitt og kænskuleg,
kvik fór á stjá.
7
Kattliðug, kolbrún á
kviðnum hún skreið.
Lágt milli lyngbúa
læddist og beið.

8
Andvaka ormur þar
ófétið sá.
Hljóðlega hristi til
himinhátt strá.
9
„Ó, þar er ótuktin
illskeytt og flá!“
Kvikeygar köngulær
kölluðu þá.
10
„Gættu mín Gleym-mér-ei,
glyrnurnar tvær,
lævísar læðast í
lynginu nær!“
11
Ljóðálfi ljúfa var
langt í frá rótt.
Hjalið í húminu
hljóðnaði skjótt.
12
Þrúgandi þögnin var
þung eins og blý.
Áttfætlur æptu í
angist á ný:

13
„Ljóðálfur, líttu upp!“
Ljúflingi brá.
Klærnar á kettinum
klemmdu hann þá.
14
Kumrandi kankvís með
kisulegt bros,
lymskuleg lagði hún
Ljóðálf í kvos.
15
Malandi í makindum,
montin og keik:
„Brátt mun ég bíta í
blómálfasteik.“
16
„Ó, ekki éta mig,”
álfurinn kvað.
Ljóðálfur ljúfi sér
lífgjafar bað.
17
Reiðir og ráðvilltir
rökkrinu í,
lyngbúar lifnuðu
loksins á ný.
18
Hugrakkri hagamús
hugkvæmdist ráð:
„Gott er að gera einn
gegnsæjan þráð!“

19
„Heyrið þið hraunbúar,
hjálpar er þörf,“
hrópaði hagamús!
„Hefjum nú störf!“
20
Klókinda köngulær
kröftugan þveng,
spaklega spunnu og
splæstu í streng.
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir hugrakka ljóðorma!

Ljúflingsljóð segir af æsilegu ævintýri Ljóðálfs ljúflings á húmhlýju ágústkvöldi í hraunbolla í Hafnarfirði.
Ykkur bjóðast Ljúflingsljóð á 2.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Lesist hátt og leikrænt fyrir börn sem kúra höfuð á kodda. Góða skemmtun og góða nótt!
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 04.09.2025 af Lárus Jón