Ljóðið … er lífsins mesti háski

Ljóðið er ort undir tersínuhætti (“terza rima”) og samið árið 2015. Rímskipan í tersínu er endarím, ABA BCB CDC o.s.frv. Hvert erindi er bundið bæði erindinu á undan og á eftir. Hvað skyldi Jónasi sáluga finnast um þetta?

Ljóðið birtist fyrst í kafla Lárusar Jóns í ritsafni meistaranema í ritlist  við HÍ, árið 2017.

Forvitinn fugl © Larus Jón - einkasafn
Forvitinn fugl © Larus Jón – einkasafn

Ljóðið

Að yrkja ljóð er lífsins mesti háski
og leiðir auðnu manns á heljarbraut,
þó fyrsta bagan byrji oft sem gáski.

Hann breytist fljótt í rím- og stuðlaþraut,
hinn fölskvalausi fögnuður og gleði
að finna nýrri hugsun segulskaut.

En ungur gleymir, óður rís af beði,
því ástarhugur kveikir funabrag
og sonnetturnar ljúfar lyfta geði.

Þó lifa andans glæður skamman dag
og kulna hratt í kalsalegu glotti:
„Slær kiljanshjartað lítið aukaslag?“

Að engjast smáður undan háði og spotti,
þau örlög skálda munu flestum kunn
því áheyrandinn helvískur er hrotti.

Svo hefnd er sæt: Að liðka níðsins hlunn
og brýna vísustúf svo stungan svíði!
— Og standa vinafár með herptan munn …

Þá andagiftin, djörfust dvergasmíði,
úr djúpi sínu veiðir ljóðið glæst
svo hugumstórt og heiminum til prýði.

En hrynjandi í stuðlum saman læst,
með höfuðstaf og hendingum og rími,
er huldublik sem aldrei framar næst.

Því upp er runninn frjór og rjóður tími,
að raða ögnum lífs á nýjan hátt
svo ylji naktri sálu orðsins brími.

Og andinn bærir væng í sólarátt,
með himinskautum hróður skáldsins líður
og hjartans litla eykur bragarmátt.

Á ljóðatindi sólarstormur stríður,
á stefjaskóginn sígur aldursbrá
og stirðum penna stungið er í slíður.

Og stakan sem var skáldsins fyrsta þrá
í öldnum huga endurborin svífur.
Að yrkja: Það er lífsins mesta vá,

því ljóðið blítt er beittur þungur hnífur!

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir sagnaorma!

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Í hverju ertu er vandfundin og hvert eintak selst fyrir háar upphæðir. Lárus Jón getur lumar á örfáum eintökum og áhugasamir geta haft samband.
Bókin er orðin safngripur þrátt fyrir temprað verð, einungis 6.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Bók sem sérhver sagnaunnandi verður að eignast!

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun!

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.

Uppfært 10.09.2025 af Lárus Jón