Jónatan jeminn – S[v]akasaga fyrir byrjendur

Jónatan jeminn er nýjasta bók Lárusar Jóns og kemur út í byrjun september 2025.

Formið er óvenjulegt og e.t.v. tilraunakennt því textinn er eitt langt samtal og allar upplýsingar sem lesandinn fær eru úr munni persónanna tveggja sem tala saman. Er sögumaðurinn áreiðanlegur? Eru upplýsingarnar réttar? Það er á valdi lesandans að ákveða.

Sumir þekkja fólk og sumir þekkja ekki fólk. Í hnédjúpri moldarholu í gömlum kirkjugarði standa tveir grafarar og spjalla um Jónatan jeminn, ævi hans og ástir allt til þess að hann braut sextugan hálsinn á bjórkassa. Annar grefur meðan hinn segir svakasögur af öllu því fólki sem þekkti Jónatan sáluga jeminn. Var honum sálgað eða dó hann af sleipum slysförum?

Hér er spunninn sagnaþráður sem spannar rúma heila öld og vefur sig upp á hárbeittar ævisnældur fjölda persóna. Sumar stinga sig til ólífis meðan aðrar snúast stjórnlítið í spunahjóli lífsins. Álög verða örlög og enginn flýr forlög sín. Frásagnargleðin fær grátbroslegar persónurnar til að spretta upp af blaðsíðunum eins og orðkúlur á sagnahaug.

Jónatan jeminn, maður fólksins sem allir hötuðu að elska!

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir iðandi bókaorma! 

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Fullt verð í bókabúð er norðan við sex þúsund krónur en Dr. S færir yður fögnuð: Áfengt eintak af Jónatani jeminn á litlar 4.700 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu  tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Jónatan fagnar bókaþyrstum!

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun! 

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.