Fröken Kúla könguló er gæðablóð og unnandi heimspekilegra álitamála. Flugurnar gætu þó verið ósammála …
Fröken Kúla könguló
Fröken Kúla könguló,
kjagaði úr berjamó,
afar feita flugu
fann hún oní smugu,
liggjandi með fastan fót.
„Æ, færðu þetta þunga grjót,“
bað hún sárt og suðaði,
suðaði og tuðaði:
„Kæra besta könguló,
kaupa skal ég strigaskó,
vandaða og ekta, á
alla þína fætur þá.“
Fröken Kúla könguló,
kallaði með stakri ró:
„Heyrðu feita fluga,
fráleitt mun það duga.
Losum nú þinn flugufót,
færðu þig hér uppí mót.“
Tók svo á og tosaði,
tosaði og losaði.
Upp úr smugu flugan fló,
fegin mjög og skellihló.
„Komdu núna könguló,
kaupum á þig strigaskó!“
Fröken Kúla könguló
kankvís brosti: „Fluga þó,
ég af heilum huga,
hjálpaði þér fluga.
Komdu nú og kyssumst, fljót,
kysstu mig þótt ég sé ljót.“
Flugan kom en fölnaði,
fölnaði og sölnaði.
Því köngulóarkossinn sá
kæfði flugugreyið þá,
feit í maga flugan dó,
á fröken Kúlu könguló.

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir liðuga bókaorma og hrekkjóttar köngulær!

Fröken Kúla könguló og fleiri kvæði er sprellibók fyrir börn á öllum aldri, sprottin upp úr uppeldistilraunum á dóttur höfundar. Hún kom út árið 2004 og hefur, að sögn, glatt svefnlesin börn um allt land alla tíð síðan.
Ykkur býðst Fröken Kúla á 2.900 flugur/krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Lesist hátt og leikrænt fyrir börn sem kúra höfuð á kodda. Góða skemmtun og góða nótt!
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 04.09.2025 af Lárus Jón