Flekaskil kom út 2018. Hún er önnur ljóðabók Lárusar Jóns.
Flekaskil
eða
nokkrar hugleiðingar
út frá jarðfræði og kenningum
Alfreds Wegeners
sem hvílir frosinn á miðjum aldri
djúpt í Grænlandsjökli
Sáluhjálp

Grafíkmynd: Undir jökli. Þurrnál og vatnslitir.
Að vera misskilinn er önugt hlutskipti.
Að vera miðaldra, hvítur og karlkyns bætir ekki úr skák. Þetta fékk hinn þýski vísindamaður Alfred Wegener að reyna þegar landrekskenningu hans var hafnað af vísindaheiminum snemma á síðustu öld. Hann lést, fimmtugur að aldri, á ferðalagi um Grænlandsjökul og liggur þar í þykkum ís.
Höfundur fann samkennd með Wegener, kannski vegna þess að hann er sjálfur á miðjum aldri, og því kviknaði ljóðspurn um sprettuna á andlegum akri manns sem skynjar eigin dauðleika handan við hornið. Á hvaða vegferð er hann? Hvernig líður honum? Verður jarðarförin fjölmenn?
Það er hollt að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna veruleikann því þá fyrst má greina vonina í tilfinningafjúkinu. Ljóð eru sáluhjálp og ef hún er þegin af auðmýkt öðlast maður víðara sjónarhorn á eigin ævi, dýpri sátt við lífið og ríkari húmor fyrir sjálfum sér og því að þurfa að setjast til að pissa.
Í þínar hendur fel ég anda minn. Njóttu vel.
Hafnarfirði, 27. október 2018,
Lárus Jón Guðmundsson
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir jökulkalda bókaorma!

Flekaskil eða nokkrar hugleiðingar út frá jarðfræði og kenningum Alfreds Wegeners sem hvílir frosinn á miðjum aldri djúpt í Grænlandsjökli, er spegill sem höfundur horfði nauðugur í, nokkuð sem miðaldra mönnum er hollt að gera fyrr en síðar. Það andar köldu af hverri síðu en um leið er ylur í orðum sem hitta beint í hjartastað.
Unnendum miðaldra karla býðst eintakið á svalar 2.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Ekki stinga bókinni í frystinn, hún geymist vel við stofuhita. Njótið með góðgæti í glasi og nálægt hlýju holdi.
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón