Júlí hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um besta erótíska handritið og Lárus Jón er fyrsti handhafi Orkídeunnar. Bókin kom út í febrúar 2024. Hér er kafli tólf.
12.

Nei, dagskráin er alveg tóm,“ sagði hann, „alveg fram yfir miðnætti,“ bætti hann við og reyndi að láta sem hann væri alvanur svona spurningum. Hún leit á úrið sem hún bar á vinstri úlnlið, eitt af þessum tölvutækjum sem var allt í senn, sími, úr og tískutákn. Kannski var púlsmælir í úrinu, hugsaði Sigurjón og velti fyrir sér hversu hratt hjarta hennar slægi þegar hún horfði á hann. Þrátt fyrir allt þá var hann enn dálítið óöruggur með sig og þessi ágæti listi sem hann hafði rissað upp var eiginlega bara það, einföld upptalning á þunnum pappír. Hann skildi ekki hvernig honum hafði tekist að fá tvær jafnólíkar og fallegar konur og fararstýruna og þá rauðhærðu til að líta við sér, hvað þá að hafa áhuga á sér. Var hann svona ómótstæðilega heillandi eða sáu þær eitthvað í honum sem hann var sér ómeðvitaður um? Voru þær kannski að nýta sér einhverja veikleika? Hann hló innra með sér. Kannski var hann einfaldur leiksoppur og viljalaust verkfæri í höndum vergjarnra, brundþyrstra og fingrafimra ástarkvenda en var hann þá ekki um leið heppnasti karlgarmur á jörðinni? Hafði ekki amma hans sagt að betra væri að njóta ferðarinnar í stað þess að hafa áhyggjur af áfangastaðnum? Ef brúneygða fararstýran var ísmeygilegur og lævís flagari sem herjaði á saklausa og upphandleggsþrútna unga pilta í þröngum stuttbuxum þá hafði hann ekki nokkra ástæðu til að kvarta. Hann var sko til í tuskið!
„Gott, næsta spurning. Ertu nokkuð myrkfælinn eða með innilokunarkennd?“ Hún brosti prakkaralega. Hann var ekki alveg viss hvert þetta samtal var að þróast en neitaði hvoru tveggja. Hann hafði aldrei fundið til óþæginda í þröngum og dimmum rýmum og hræðsla við myrkur var honum óþekkt. Hún tók í hönd hans og leiddi hann að stórum fjallajeppa, hálfgerðum trukki, með þrepi til að auðvelda manni að stíga upp í hann. Jeppinn var með palli og húsið yfir honum var meira en tveir metrar á lengd og nógu hátt til að hún gæti staðið upprétt inni í því. Hún gekk að afturhleranum, opnaði hann, henti bakpokanum sínum inn og rétti út höndina eftir pokanum hans. Sigurjón lét hana fá pokann og kíkti inn í pallhúsið meðan hún kom honum fyrir. Þar inni var allt sem þurfti til útilegu. Tjald, svefnpoki, dýna, lugtir, prímus og matarbox, hvert um sig í merktri hillu og á hinum veggnum héngu hankir af klifurköðlum, karabínum og sigbelti. Hún skellti aftur hleranum, benti honum að klifra upp farþegamegin, opnaði bílstjórahurðina og vippaði sér fimlega upp í sætið. Hann settist í sætið við hlið hennar og leitaði að öryggisbeltinu.
„Mig langar að kynna þér skemmtilegan stað sem þú hefur örugglega aldrei séð áður,“ sagði hún og setti trukkinn í gang. Díselvélin malaði lágt undir hljóðeinangruðu húddinu og hún ók með stæl út af bílastæðinu. Hann kinkaði kolli og þau sögðu ekkert meðan hún ók út fyrir borgina uns hún beygði inn á hálffaldan slóða sem lá inn í úfnar hraunbreiðurnar sem þöktu stór svæði rétt við borgarmörkin. Slóðin var greinilega ekki fær nema stórum bílum eins og hennar því hann sveiflaðist til og frá á ójöfnum veginum og nokkrum sinnum rákust stórir hraunhnullungar upp undir fjallháan jeppann. Eftir um stundarfjórðungs brölt gegnum hraunið komu þau að sléttri hraunbreiðu, gömlu hrauni sem runnið hafði fyrir löngu. Yngra hraun hafði flætt umhverfis sléttuna þannig að útkoman varð eins konar hraunrjóður. Hún sneri trukknum við og lagði honum þannig að hann var í hvarfi fyrir þeim sem gætu komið eftir slóðanum og drap á vélinni.
„Jæja, þá erum við næstum komin,“ sagði hún og horfði á hann. Honum leið eins og hún væri að mæla hann út. Tilfinningin var ekki óþægileg, nokkuð sem kom honum á óvart því hann var ekki vanur slíkri grannskoðun. Frekar að hann væri sá sem mældi út kroppa og lögulegar kvenmannslínur. Hann fann til eftirvæntingar því fararstýran hafði undarleg áhrif á hann. Hún hafði eitthvað ákveðið í huga og hann gat ekki beðið eftir að sjá hvað það var. Hún virtist lesa hugsanir hans því hún losaði öryggisbeltið, færði sig nær, tók um höfuð hans og kyssti hann ástríðufullum kossi. Hann var viðbúinn og tók vel á móti og fannst hann lyftast í sætinu því hún kyssti eins og enginn væri morgundagurinn. Hann lagði hönd á brjóst hennar og ætlaði að draga hana nær sér þegar hún sleit sig frá honum andstutt.
„Vertu rólegur,“ sagði hún með ljóma í augum, „þetta er bara byrjunin. Komdu.“ Hún opnaði bílstjóradyrnar og hoppaði niður, gekk aftur fyrir jeppann og opnaði afturhlerann. Þegar hann hafði klöngrast niður úr bílnum og gengið aftur fyrir bílinn rétti hún honum þungan en meðfærilegan rafgeymi, lítinn hitablásara og ennisljós. Ennfremur tvö samanrúlluð teppi og sagði honum að stinga þessu öllu ofan í tóman bakpoka sem hún rétti honum. Sjálf var hún með ennisljós og fullan bakpoka af dóti sem hann sá ekki hvað var. Hún skellti hleranum aftur, lokaði og læsti bílnum, teygði sig upp og kyssti hann létt á kinn og benti honum svo að fylgja sér.
Þau gengu frá bílnum meðfram hraunjaðrinum og hann var farinn að velta fyrir sér hvort þau þyrftu að príla yfir úfið og gaddað hraunið þegar hún staðnæmdist við stóran hraunklett sem stóð við jaðar rjóðursins.
„Nú þurfum við að fara varlega, það er auðvelt að brjóta bein í þessu grjóti,“ sagði hún og hvarf á bak við klettinn. Sigurjón elti og var orðinn forvitinn. Á milli hraundrangsins og úfna hraunjaðarsins var þröngt op sem lá skáhallt ofan í jörðina. Hún var þegar komin hálf niður um holuna og hann horfði á hana klifra fimlega niður sprungið bergið uns hún náði botninum nokkrum metrum neðar. Hún kallaði til hans að láta bakpokann hennar síga og þá tók hann eftir að hún hafði bundið kaðal í hann. Hann lét pokann síga niður, hún leysti reipið sem hann dró upp, batt við sinn poka og endurtók leikinn. Hann lét reipið falla á eftir pokanum. Honum veittist niðurferðin auðveld en þegar hann átti eitt skref ófarið niður á hellisgólfið greip hún um holdið milli fóta hans og kreisti létt. Hann missti næstum jafnvægið en tókst að stíga niður og hún kyssti hann aftur, af meiri áfergju en í fyrri skiptin og án þess að sleppa takinu á djásninu. Hann æstist allur upp því þetta var svo nýtt og framandi. Þessi kona vissi nákvæmlega hvað hún vildi og það kynti enn frekar undir. Enn og aftur sleit hún sig frá honum og kveikti á ennisljósinu. Hann fann rofann á sínu og kveikti.
Bjartar ljóskeilurnar lýstu upp myrkrið og hann blístraði lágt.
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir iðandi erótíska bókaorma!

Júlí er erótísk skáldsaga eða nóvella og lýsir hormónalífi ungs, leitandi manns , vegferð hans um rakan frumskóg kvenlíkamans og markmið hans að fullnuma þá list að gera konur hamingjusamar. Nóvellan hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um besta erótíska handritið og Lárus Jón er fyrsti handhafi Orkídeunnar. Forlagið Hringaná stóð fyrir keppninni.
Hamingjuleitandi áhugafólki um iðandi erótík býðst eintakið á heitar 3.500 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Skiljið bókina eftir á glámbekk því fátt kætir og bætir lífið eins og skapandi orð unaðar og kitlandi langana.
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón