
Jónatan jeminn er nýjasta bók Lárusar Jóns og kemur út í byrjun september 2025. Hér er kafli úr bókinni.
– Veistu, Jónatan hefði aldrei oltið alla leið ofan af fjórðu hæð niður stigann á Hólsgötu þrjátíu og tvö og hálsbrotið sig á bjórkassanum sem Björn skipstjóri á jarðhæðinni skildi óvart eftir í anddyrinu af því hann var svo þunnur eftir sumblið kvöldið áður, ef hann hefði farið að ráðum konu sinnar og keypt íbúðina á annarri hæðinni þegar hún bauðst. Eins og Frú Gunnhildur sagði við hvern sem nennti að hlusta: Þetta reyndi ég að berja inn í hausinn á honum en þumbarinn sem hann var, þá vildi hann bíða og sjá hvort verðið myndi ekki lækka. Þeim fækkaði hins vegar fljótt sem nenntu að hlusta eftir að hvítskellóttu kistulokinu var steypt yfir Jónatan undir fölskum sálusöng Halldórs djákna.
Þú þekkir Halldór, er það ekki? Þessi sem féll í guðfræðideildinni en fékk vinnu sem prestahvíslari í Óseyrarkirkju eftir ókristilegum leiðum. Málið var að það vantaði ekki neinn djákna. Guðmann gamli prestur hélt við mömmu hans og frekar en að það fréttist tók hann Halldór ræfilinn undir væng hins heilaga anda með hátíðlegu loforði um að steinþegja um brotin á sjöunda boðorðinu. Nú, árin liðu, mamma Halldórs dó og séra Guðmanni förlaðist embættið þannig að Halldór minn var farinn að fikra sig í rólegheitunum upp í predikunarstólinn og taka yfir fleiri og fleiri prestsverk. Einhverjir nöldruðu yfir þessu en enginn nennti að vasast í að ráða nýjan prest svo Halldór var orðinn defakto prestur upp sitt einsdæmi þrjátíu árum eftir fallið í guðsdeildinni.
– En hvað m-með Gunnhildi?
– Frú Gunnhildur notaði tækifærið í erfidrykkjunni hans Jónatans, síns elskulega eiginmanns, og dró fram fína, hvíta og blámálaða bollastellið þótt Rósa tengdamóðir hennar hefði með hásri dauðahryglu á dánarstundinni beðið Jónatan sinn fyrir alla muni að láta ekki þessa hræðilegu konu komast í mávana mína. Frú Gunnhildur var reyndar heilan dag að finna stellið því Jónatan hafði með lævíslegum hætti falið það í stórum verkfærakassa undir stafla af gömlum reiðhjóladekkjum í geymslunni uppi á hanabjálka ofan við íbúðina á fjórðu hæð en þegar hún var búin að bjóða syrgjendunum að gjöra svo vel, tókst helvítinu honum Jens á þriðju hæðinni að missa einn bollann eftir að hafa skóflað svo stórri sneið af brauðtertunni á diskinn sinn að hann þurfti báðar hendur til að bera hann. Þá voru náttúrulega engar hendur eftir til að halda á bollanum sem féll með ilmandi kaffistrókinn á eftir sér eins og hlandbuna í roki og fór í mask fyrir framan tærnar á Fröken Ólafíu, þú veist, þessari sem keypti íbúðina á annarri hæðinni eftir að Jónatan og Frú Gunnhildur fluttu inn á þá fjórðu. Fröken Ólafía, í sínum þunnu rjómalituðu sokkabuxum og hnésíðu dragt, hafði óskaplega granna kálfa og Jens ræfillinn, í þynnkunni því hann var nýkominn úr flugi þótt allir vissu að hann fór bara til Björns skipstjóra á jarðhæðinni að drekka smyglaða bjórinn sem Bjössi laumaði með sér á Skaftafellinu þegar hann kom frá Amríkunni, kraup í ofboði til að tína upp bollabrotin en strauk þá hendinni alveg óvart upp kálfann á Fröken Ólafíu. Frú Norðfjörð …
– Hver var það?
– Nú, konan hans Jens. Reyndu að fylgjast með, maður. Hvar var ég aftur? Já, Frú Norðfjörð, hún tók ekkert eftir þessu kálfaþukli fyrr en Fröken Ólafía skríkti eins og kitlin skólapíka því Jens, með hausinn hálfan upp undir dragtinni, hélt dauðahaldi í kálfann á henni með annarri hendinni því hin höndin var blóðug eftir hárbeitt bollabrotin sem hann reyndi að tína upp af gólfinu. Frú Norðfjörð, eins og hún átti kvenkyn til, var skotfljót að átta sig og tók sér stöðu fyrir aftan Jens, í grænu hælaskónum sem Jens þóttist hafa beðið Bjössa að kaupa fyrir sig í Boston fyrir metfé en skipstjórinn hafði víst fengið hjá einhverjum fráskildum vini sínum fyrir hálfan kassa af bjór, en sá hafði hent konunni sinni út fyrir að halda fram hjá með Óla rafmagnsmælaaflesara, þú veist, þessum sem kvæntist henni Arndísi í blómabúðinni, og hefnt sín með því að selja skósafnið hennar.
– Aha.
– Þetta voru flottir skór, eiturgrænir með oddmjórri tá og ábyggilega fimm sentimetra pinnahælum úr þýsku eðalstáli og það var ekkert hik á minni því hún setti þvílíkt mark með hægri fótar spyrnu milli skankanna á Jens þar sem hann sneri gatinu í hana, að hefði þetta verið venjulegur bolti hefði hann flogið langt en þar sem þetta voru bara kúlurnar hans Jens þá fóru þær ekki alveg eins langt.
– Æ æ æ… Manni verður b-bara illt. Og Jens?
– Nú, hvað heldurðu? Hann greip báðum höndum um logandi djásnin, gólandi eins og breima köttur á lóðaríi en af því að hann lá á hnjánum þá var ekkert sem hélt höfðinu og bolnum uppi svo hann fór lóðbeint með andlitið á beinabera ristina á Fröken Ólafíu og braut á sér helvítis nefið. Blóðið, maður heilagur, sem rúmast í einu nefi.
En ekki nóg með það, Frú Norðfjörð var ekki búin. Pinnahælarnir voru mjóir og hægt að negla saman tveggja tommu spýtur með þeim. Hún hafði aldrei haft neinn áhuga á fótbolta en grínlaust, hún hefði getað fengið atvinnusamning hjá hvaða stórliði sem var eftir þetta kúluspark í Jens. Og þar sem karlkvölin lá hvínandi með krumlurnar í klofinu og blóðspýtinginn upp um leggina á Fröken Ólafíu, hlóð Frú Norðfjörð í annað meistaraspark sem hefði skorað hælinn inn og upp görnina á Jens ef Frú Ágústa hefði ekki stokkið honum til varnar, nokkuð sem hún hefði ekki átt að gera …
– Bíddu, bíddu. Frú Ágústa, hver var það?
– Ertu heyrnarlaus maður! Frú Ágústa skipstjórans. Konan hans Björns skipstjóra á jarðhæðinni. Ertu kannski strax búinn að gleyma honum?
– Ha? Nei, nei. Auðvitað man ég eftir honum. V-vertu rólegur maður.
– Einmitt. Það hefði Frú Ágústa líka átt að vera, róleg og láta eiga sig að skipta sér af atvinnukonu í kúlusparki sem var að hita sig upp fyrir næsta víti. Úr varð sannkölluð vítisspyrna því þegar Frú Ágústa asnaðist í skotlínuna var skóaður fóturinn á Frú Norðfjörð eins og grænhreistraður ormur í miðju höggi.
Frú Ágústa gekk alltaf með handtösku úr hertum krókódílaskráp, sem Björn skipstjóri hafði keypt handa henni í einum túrnum á Skaftafellinu til Egyptalands. Töskunni var læst með stórri og þykkri smellu úr gullhúðuðu stáli og vakti óskipta athygli hvert sem Frú Ágústa fór, fyrst og fremst fyrir það hvað skjóðan var skelfilega púkó en þarna gerði hún sitt gagn því tveggja tommu pinnahællinn fór á kaf í smelluna og næstum því í gegnum tvöfaldan eðluskrápinn og hefði skriðdýrið verið þarna í eigin persónu hefði Frú Norðfjörð drepið sinn fyrsta krókódíl.
Hællinn var kafrekinn í veskið, fóturinn á Frú Norðfjörð sat fastur í skónum, handtaskan hékk í axlaról um hálsinn á Frú Ágústu og í eina langa sekúndu reyndu þær að ná jafnvæginu sem þetta tröllaspark hafði raskað en það var eins og að standa á hnífsegg. Fagurlimaður líkami Frú Norðfjörð fylgdi fætinum eftir og skall á Frú Ágústu sem hlunkaðist á skutinn á Jens sem dúndraðist flatur og skallaði ristarnar á Fröken Ólafíu sem rak upp franskan píkuskræk og greip í brúnina á veisluborðinu til að detta ekki en aðdráttarafl móður jarðar gaf engan afslátt og öll hersingin hrúgaðist á gólfið og kökum hlaðið borðið sporðreistist og hvítmálaða stellinu sem tengdamóðir Frú Gunnhildar hafði ekki treyst henni fyrir, rigndi yfir þau eins og driti úr magaveikum mávum.
– Amen, segi ég nú b-bara. Meiddust þau ekki?
– Jú, Jens var náttúrulega með skurð á hendi og brotið nef en til viðbótar þurfti að sauma nokkur spor í sekkinn. Frú Ágústa rófubeinsbrotnaði þegar hún hlassaðist á rýran rassinn á Jens og Frú Norðfjörð tognaði illa á ökkla því krókódílar hafa aldrei þótt sérstaklega hörundsárir og það sem stingst í skrápinn losnar illa úr honum aftur. Fröken Ólafía fékk vægt taugaáfall því rjómalituðu sokkabuxurnar sem hún hafði látið senda sér frá París eyðilögðust eftir blóðfossinn úr nefinu á Jens.
– Og hvað gerðist svo?
– Nú, nú. Til að byrja með stóðu þeir sem á horfðu stjarfir eins og dropasteinar á hellisgólfi en fyrstur til að kveikja á perunni var prestahvíslarinn, merkilegt nokk, því það logaði ekki oft á þeirri glerkúlu. Hans fyrsta verk var að stumra yfir Frú Norðfjörð og hann tók þétt um lærið á henni til að losa fótinn úr skónum. Frú Norðfjörð þekkti djáknann frá gamalli tíð og ekki af eintómri manngæsku og sló á höndina sem var alveg óvart komin upp í nára. Halldóri brá og kippti að sér lúkunni en þá vildi ekki betur til en svo að Björn, sem var að bjarga skipstjórafrúnni upp af hrútvöxnum bakhlutanum á Jens, var með nefið á röngum stað og þegar handarbakið og trýnið mættust féllu bjórmettaðir blóðdropar eins og regnúði á hlýju vori yfir Fröken Ólafíu sem skrækti enn hærra því nú var mjólkurhvíta og hnésíða Parísardragtin byrjuð að líkjast nýorpnu glóbrystingseggi.
Björn skipstjóri var ekki skaplaus maður og Halldór auminginn fékk umsvifalaust einn gleðilegan gúmoren frá Úrsusi almáttugum og regnúðinn varð að rauðri gróðrarskúr. Björn, sem hafði hálfblindast af blóðgusunum úr nefinu á sér, missti jafnvægið því við hnefahöggið lyppaðist djákninn niður eins og skítugur náttsloppur sem skreppur af snaga og saman féllu þeir eins og lurkar sem kastað er á hvæsandi bál. Eldglæringarnar og munnsöfnuðurinn sem þyrlaðist upp af kösinni á gólfinu var þvílíkur að Frú Gunnhildur gerði það eina sem hægt var að gera í svona tilvikum, nefnilega að setjast niður og skellihlæja, en þegar hún áttaði sig á afdrifum mávastellsins varð hláturinn að sárum gráti og lögreglumaðurinn sem svaraði í neyðarsímann niðri á stöð mátti hafa sig allan við að greina í gegnum ekkasogin hvað hún var að segja.
– Ja hérna hér. Ég segi nú bara annað amen.
– Já, svo sannarlega var ekki vanþörf á öðru ameni. Löggan kom og kallaði strax eftir þremur sjúkrabílum fyrir þá Jens, Halldór og Björn skipstjóra sem allir voru misjafnlega mikið nefbrotnir að ekki sé minnst á gauðrifinn pokann á Jens. Fröken Ólafía fékk far með lögreglubílnum því offisérinn sem reyndi að róa hana niður var ungur og myndarlegur með jarpt hár og suðræn og seiðandi augu og hún neitaði að fara úr fanginu á honum fyrr en lögð hefði verið fram kæra á hendur þremenningunum fyrir líkamsárás, kynferðislegt áreiti og óvirðingu við nýjustu Parísartískuna. Sá suðræni lét sér vel líka og þau sátu í faðmlögum í aftursæti lögreglubílsins alla leið niður á stöð.
– En hvað með hinar k-konurnar?
– Hinar konurnar?
– Já, þær Frú Gunnhildi, Frú Norðfjörð og Ágústu skipstjórafrú?
– Hvernig á ég að vita það? Mér var ekki boðið í þessa erfidrykkju. Mér er aldrei boðið í svona fínar veislur. Af hverju heldur þú að ég sé hér í þessari moldargryfju með þér? Öskrandi samkvæmisljón með þverslaufu á sér annað og náttúrulegra heimkynni en jarðkalda náholu. Sá sem hefur séð heiminn og stundað skítverk eins og krafist er af manni í minni stöðu á erfitt með að losna við fnykinn og hver vill veislugest sem lyktar eins og rakt pungbindi í sveittri íþróttatösku?
– En, hvernig v-veistu þá allt þetta? Þekktirðu kannski Jónatan?
– Ég? Auðvitað. Hver þekkti ekki Jónatan Kristófers? Allir þekktu hann, meira eða minna, sumir meira eins og ég og aðrir minna, eða varla neitt, eins og þú. Hverja þekkir þú annars? Kannastu yfirleitt við nokkurn mann?
– Auðvitað þekki ég fullt af fólki. Ég veit bara ekkert um þennan Jónatan. É-ég er heldur ekki viss um að þú þekkir hann eins vel og þú segir.
– É, é, é. Helvíti stamarðu maður. Ertu svona stressaður? Eða ertu svona lengi að hugsa? Sumir þekkja fólk og sumir þekkja ekki fólk. Af því leiðir að þeir sem ekki þekkja fólk eru auðgleymdir því ekkert fólk þekkir þá. Ekki satt? Þú ert sem sagt nóboddí í þessum heimi, eins og langflestir í þessum kirkjugarði.
– Ég stama b-bara stundum. Það er ljótt að gera grín að þeim sem stama, við ráðum ekkert við það.
– Þú ert bara of seinn að hugsa, gæskur. Þeir sem eru seinir að hugsa endurtaka hljóðin til að kaupa sér tíma því tafsið tefur. Þú þarft bara að æfa þig að hugsa hratt og þá hverfur stamið.
– Síðan hvenær ert þú orðinn talmeinafræðingur?
– Síðan mér datt það í hug. Sko, þarna var ég fljótari að hugsa en þú, enda stama ég aldrei. Frú Gunnhildur var einmitt eldfljót að hugsa eftir að Jónatan húrraði niður alla stigana og blóðið í honum var varla kólnað þegar hún var komin upp á hanabjálka að leita að mávastellinu. Manstu, þessu sem ég sagði þér frá áðan?
– Jú, jú, auðvitað man ég það.
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir iðandi bókaorma!

Fullt verð í bókabúð er norðan við sex þúsund krónur en Dr. S færir yður fögnuð: Áfengt eintak af Jónatani jeminn á litlar 4.700 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Jónatan fagnar bókaþyrstum!
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 04.09.2025 af Lárus Jón