Af austfjarðaþokunni, samanbrotna faktornum og þingmannsþunnildinu

© 2007 Aðalheiður Ólöf Skarphéðinsdóttir. Einþrykk. Þurrnál og vatnslitir. Heiti: Sögustund (hluti myndar)
© 2007 Aðalheiður Ólöf Skarphéðinsdóttir. Einþrykk. Þurrnál og vatnslitir. Heiti: Sögustund (hluti myndar)

Jónatan jeminn er nýjasta bók Lárusar Jóns og kemur út í byrjun september 2025. Hér er kafli úr bókinni.

– Frú Norðfjörð? Mér þykir þú geispa gleitt. Hvaða ástæðu ætti sú blíða austfjarðagola að hafa til að sálga valmenni eins og honum Jónatani okkar? Ha? Pabbi hennar var þingmaður í þrjátíu ár, afi hennar sýslumaður í fjörutíu ár og langafinn prestur í fimmtíu og fimm ár. Slíkt slekti gengur ekki um myrðandi mann og annan að gamni sínu. Langafinn reyndar, hann var jú prestur, maður veit aldrei um þá.

– Var hún kannski skotinn í honum?

– Frú Norðfjörð og Jónatan? Þú segir nokkuð. Jónatani hefði verið trúandi til að reyna að fleka austfjarðafljóðið, þó ekki nema til þess að ná sér niðri á Jens. Frú Norðfjörð var alltaf dálítið dularfull. Hún sagði fátt og gaf lítið upp um sína hagi en það var glóð undir rjómahvítu yfirborðinu og þar sem snarkar getur blossað upp funi ef mátulegu súrefni er blásið á rétta staði. Þú manst eftir eiturgrænu og oddmjóu skónum sem næstum því breyttu Jens í falsettusöngvara? Frú Norðfjörð dró ekki af sér þegar aðstæður kröfðust.

– Af hverju sagði hún fátt? Stamaði hún k-kannski eins og ég?

– Nei, hún var of fljót að hugsa til þess að standa í svoleiðis aulaskap.

– Ég er enginn auli þótt ég stami!

– Já, já, vertu slakur. Ég segi nú bara svona. Nei. Frú Norðfjörð var enginn vitleysingur og stóð ættfeðrum sínum framar að flestu leyti, sérstaklega kragakjánanum langafa hennar. Hún var einbirni því pabbi hennar var ekki þróttmeiri en svo að eftir að dóttirin fæddist gekk ekkert að skaffa fleiri systkini. Ég get ekki staðfest þetta en hef eftir traustum heimildarmanni að konan hans, hún Frú Klara, hafi gengið um með húrrandi höfuðverk í mörg ár eftir fæðingu stúlkunnar og verið ekki síður laus fóturinn en Frú Norðfjörð síðar meir, eins og ég sagði þér frá áðan.

– Var hún líka með höfuðverk? Var þetta einhver faraldur hjá þessum konum sem þú ert að segja mér frá?

– Jæja, þar rataðist kjöftugum loks rétt orð á munn. Ég get sagt þér að höfuðverkur eins og þessar kjarnakonur, sem ég hef verið að reyna að lýsa fyrir þér, þjáðust af hefur bjargað geðheilsu kvenna og jafnvel lífi. Á ögurstundum á ævi hverrar konu er hann beittasta vopnið, þessi harmræni og hamrandi verkur sem lemur innan höfuðkúpuna eins og slagverkur í flutningi marserandi trommusveitar í sprengjuregni á slorugum blóðvelli. Engum, hvorki eiginmönnum, elskhugum né öðrum unnendum kvenlegrar blíðu hefur tekist að verjast þessu lostalægjandi lagvopni og hafa því verið á undanhaldi alla mannkynssöguna og eiginlega mætti kalla þetta eitt merkilegasta fyrirbæri kvenkynssögunnar ef einhverjum dytti í hug að skrá hana á blað.

Frú Klara var sérfræðingur í þessum efnum og pabbi Ungmeyjar Norðfjörð steig ekki beinlínis jafnt í báða fætur, enda sýslumannssonur. Alla vega tókst honum ekki að smeygja sér inn fyrir blúndubrækurnar nema í þetta eina skipti. Ungmey Norðfjörð fékk góða skólun hjá móður sinni, sem speglaðist skýrast í barnleysi þeirra Jens og aumkunarverðum tilraunum hans til að ná athygli Fröken Ólafíu.

Hún er reyndar skemmtileg sagan af tilhugalífi Frú Klöru og sýslusonarins. Frú Klara ólst upp í einum af þessum fjallbröttu fjörðum þarna fyrir austan þar sem sólin skín ekki nema hluta úr ári. Þingmannsþúfan sem síðar varð, var sonur sýslumannsins í héraðinu eins og ég minntist á áðan, og þeir feðgar bjuggu á höfuðbóli sveitarinnar, sem stóð á lágum hól undir fjallinu sem fjörðurinn dró nafn sitt af. Á eyrinni fyrir neðan bæinn hafði myndast byggð í kringum þilskipaútgerð og verslun. Þar stóðu nokkur hús, lítið kirkjuræskni og fiskhjallar. Stærsta byggingin var faktorshúsið á fjörukambinum ofan við bryggjuna sem teygði sig út frá eyrinni.

Sýslumannsfrúin var fyrir all nokkru farin til Danmerkur að leita sér lækninga við endurteknum höfuðkvölum svo þeir feðgar voru einir á höfuðbólinu, auk tveggja vinnumanna og eldabusku, sem merkilegt nokk var alveg laus við höfuðverki, kannski af því að hún bar á sig tófufeiti til að halda í ungmeyjarbjarmann í andliti og höndum og kannski víðar. Hún svaf líka alltaf við opinn glugga og sagði fátt betra fyrir hrausta húð en kannski hafði hún bara ofnæmi fyrir melrakkamörnum.

Frú Klara, sem var auðvitað bara ungfrú þegar þetta gerðist, var dóttir faktorsins. Sá var hávaxinn með afbrigðum, teinréttur eins og nýreistur snúrustaur og með einkennilega smáar hendur. Hann var fjórði í röð faktora þarna í firðinum og hreykti sér af enn lengri ættarsögu, allt aftur til loka sextándu aldar þegar fyrstu einokunarkaupmennirnir settust þar að. Sveitungum hans fannst reyndar ekki mikið til hennar koma því allir hans forfeður höfðu verið mestu svíðingar og nánasir í viðskiptum sínum við íbúa fjarðarins og hann hefði eflaust höggvið í sama knérunn ef ekki hefði nýlega verið lagður akfær vegur upp úr firðinum yfir heiðina til næsta byggðarlags. Þangað fóru allir sem á annað borð gátu hreyft á sér tærnar til að versla á skikkanlegum kjörum. Sjálfsagt hefur Frú Klara, sem var ungfrú þegar sagan gerist … Þú ert að fylgjast með, er það ekki?

– Ég? Jú, jú. Ungfrú, ekki Frú, og faktor með smáar hendur.

– Gott, það er ekkert eins dónalegt og að hlýða ekki á góðan sögumann sem kann sína list, og hlustaðu nú. Frú Klara, sem enn var ungfrú eins og ég sagði, áttaði sig fljótt á breyttum tímum og hvatti föður sinn til að rýmka prísana og bæta viðmótið gagnvart kúnnunum því annars færi hann bara lóðbeint á hausinn með det samme, eins og danskurinn segir. Þú kannt dönsku, er það ekki? Frönskuspekingur getur ekki verið mállaus á norrænar tungur, ha?

– Jú, é-ég kann eitthvað pínulítið, god dag og svona.

– Nú, nú. Karluglan þráaðist auðvitað við, því það er ekki svo auðvelt að draga merkikertið úr afturendanum á sér eftir að gengnar kynslóðir höfðu komið því jafn kirfilega fyrir. Ekki tók nema tvö ár að hnýta slaufu á þessa óslitnu kaupskaparsögu síðustu fjögur hundruð ára og þegar sýslumannsbeyglan mætti til að gera faktorinn upp, tók hann son sinn með til að sýna honum hvernig heimurinn snerist. Sá fylgdist andaktugur með föður sínum toga tappa úr flöskum og byrja að drekka upp þóknunina fyrir gjaldþrotaskiptin áður en uppboðið hófst en gapti enn gleiðar þegar hann leit augum Klöru, dóttur faktorsins. Hann hafði auðvitað séð hana oft áður og þau leikið sér saman sem börn en að sjá hana þarna, þar sem hún stóð, keik með hendur á mjöðmum og þennan myndugleikasvip sem hann hafði aldrei áður litið, fór alveg með hann. Hann blóðroðnaði og svitnaði og fölnaði sitt á hvað, setti lúkurnar í vasann eða aftur fyrir bak eða klóraði sér í höfðinu og átti í mestu vandræðum með sjálfan sig. Í stuttu máli, hann kolféll fyrir henni.

Faktorinn gjaldþrota, pabbi hennar, sat íklæddur lúnum lafafrakka í gormslitnum hægindastól eins og tvísamanbrotið ullarteppi og allt í einu virtust hendurnar á honum það eina stóra við hann. Hann var búinn að vera og þegar dagurinn var liðinn, drafandi sýslarinn búinn að bjóða innbúið upp og verslunin opinberlega farin á hausinn, var honum hraukað upp á gamlan jálk sem einn kotbóndinn hafði af gæsku sinni lánað honum, og hossaðist á honum eftir nýja veginum yfir heiðina með nokkrar krónur í síðum frakkanum sem næstum því dróst eftir götunni.

Það fór fáum sögum af honum eftir þetta en þeim mun meira var skrafað um Frú Klöru, ungfrú Klöru, þú veist, eftir að hún ákvað að þiggja ráðskonustöðu hjá sýslumannsskaufanum. Konan hans var jú úti í Danmörku að leita sér lækninga við höfuðpínslum og því vantaði sárlega kvenleika og mýkt í heimilisbraginn uppi á hólnum. Eflaust hefur sýslumannssonurinn haft einhver áhrif á föður sinn til að koma þessu í kring.

Nema hvað. Ungfrúin þurfti ekki marga daga til að leggja sýslumannshúsið undir sig því hún trúlofaðist syninum eftir fyrstu vikuna, giftist honum í lok þeirrar fjórðu og átta mánuðum síðar skaust hún Frú Norðfjörð okkar í heiminn. Þannig að þú sérð að Frú Norðfjörð stendur við enda regnbogans hvað snertir ættgöfgi og langfeðgatal. Frú Klara var fljót að tileinka sér þessa alræmdu höfuðverki, sem eru eiginlega eins og riðuveiki í sauðfé því það er sama hvað skorið er niður og sótthreinsað, þessari pest skýtur ætíð upp aftur eins og lúsugum lunda úr skuggalegri hreiðurholu. Af þessu leiddi að Frú Norðfjörð var einbirni, eins og ég nefndi í upphafi.

– Já, é-ég man það, en hvað með hana og Jónatan?

– Bíddu, bíddu, á undan Jónatani kom Jens, manstu? Hún og Jónatan hefði aldrei gengið upp. Eða er ég kannski að rugla? Þetta er allt pínu flókið, öll þessi nöfn sem byrja á joð. Jú, nú man ég. Eitt joð kom á undan bæði Jens og Jónatani. Já, já, nú rifjast þetta upp, bjart og skýrt.

Ungmey Norðfjörð ólst upp í firðinum til fimmtán ára aldurs og þá vildi svo til að pabbi hennar var kosinn á þing og þurfti að flytja suður um haustið. Því var nú hvíslað að eiginlega hafi sveitungarnir kosið Frú Klöru því hún var miklu meiri skörungur en kallinn en kjörnefndin sá engan flöt á að stilla upp kvenmanni svo hann var hengdur upp í staðinn. Frú Klara grét það ekki því þetta hentaði henni mun betur, hún gat flutt suður og sinnt sínu, ótrufluð af þingfjasi og eiginmanni. Hún kom dóttur sinni í menntaskóla og tónlistarskóla og ballettskóla og söngskóla og leiddi hana í allan sannleika um hina fínni drætti höfuðþrauta og til hvers þær væru nýtilegar. Frú Norðfjörð, ég meina Ungmey Norðfjörð, blómstraði og þær mæðgur fóru aldrei aftur austur í þrönga fjörðinn þótt þingmannsþunnildið ferðaðist þangað reglulega í þingfríum til að hitta kjósendur sína, nokkuð sem hentaði Frú Klöru enn betur því þá gátu þær mæðgur gert það sem þær vildu án kjánalegra spurninga og athugasemda frá þingmannsræflinum. Austfjarðablómið hitti Jósef einmitt í einu slíku þingfríi. Hann hét reyndar Ioseb en breytti því í Jósef eftir að hann kom til Íslands. Hann var óvenjulegur ungur maður með enn óvenjulegri sögu. Ertu tilbúinn í eina sögu í viðbót?

– Já, já, láttu vaða, þetta getur varla versnað.

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir iðandi bókaorma! 

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Fullt verð í bókabúð er norðan við sex þúsund krónur en Dr. S færir yður fögnuð: Áfengt eintak af Jónatani jeminn á litlar 4.700 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu  tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Jónatan fagnar bókaþyrstum!

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun! 

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.

Uppfært 04.09.2025 af Lárus Jón