Á jökulsvæfli undir mjallarsæng

Flekaskil kom út 2018. Hún er önnur ljóðabók Lárusar Jóns.

Hér eru þrjú ljóð úr fyrsta hluta bókarinnar:

© 2004 Aðalheiður Ólöf Skarphéðinsdóttir. Grafíkmynd: Undir jökli. Þurrnál og vatnslitir. Hluti myndar.
© 2004 Aðalheiður Ólöf Skarphéðinsdóttir.
Grafíkmynd: Undir jökli. Þurrnál og vatnslitir. Hluti myndar.

Meginlönd

Wegener hafði rétt fyrir sér

Meginlönd fjarlægjast
hvort annað
hægt en örugglega

Hann hefði ekki þurft
fjórar Grænlandsferðir
til staðfestingar
á því

Honum hefði dugað
að rannsaka
hvítu jökulsængina
mína

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Hvítamyrkur

Á jökulsvæfli
undir mjallarsæng

hvílir höfuð
mannsins
sem rak
meginlönd
um höf

á hvarmi er
hvítamyrkur

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Eldfjall

Wegener sagði aldrei
að karlar væru eldfjöll
og konur höf

en þegar glóandi tungan
sígur
í vott djúpið

bullsýður
uns hraunið storknar
í steindri grettu

Sum eldfjöll
eru kulnuð

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir jökulkalda bókaorma!

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Flekaskil eða nokkrar hugleiðingar út frá jarðfræði og kenningum Alfreds Wegeners sem hvílir frosinn á miðjum aldri djúpt í Grænlandsjökli, er spegill sem höfundur horfði nauðugur í, nokkuð sem miðaldra mönnum er hollt að gera fyrr en síðar. Það andar köldu af hverri síðu en um leið er ylur í orðum sem hitta beint í hjartastað.
Unnendum miðaldra karla býðst eintakið á svalar 2.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Ekki stinga bókinni í frystinn, hún geymist vel við stofuhita. Njótið með góðgæti í glasi og nálægt hlýju holdi.

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun!

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.

Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón