Haustþula Þarna flýgur hvítur hrafn

Haustið er tími breytinga, heimurinn skiptir litum og margt býr í rökkrinu. Þulan birtist fyrst í barnabókinni Fröken Kúla könguló og fleiri kvæði.

Haustþula

Ósköp hvað ég hlakka til
á haustin, svona um það bil
að regnið kallar: „Kominn er
kalsalegur september,“
því köngulær og krækiber
kátur vil ég tína
og mömmu minni sýna,
meðan krían flýgur burt
og blómin fölna á fjallajurt
og fjúka síðan, veistu hvurt?
Kannski kemur slydda.
Kannski þarf að ydda
bláa fína blýantinn
því byrjaður er skólinn minn.
Uss, nú kemur kennarinn,
kallar hátt á bekkinn sinn:
„Hættið þessu þvaðri,
þrugli, rugli og blaðri.“
Amma sýður slátur,
segir fornar gátur:
„Hvað er það sem hoppar,
á heljarbrúnni skoppar,
með mannabein í maga?“
Mikil er sú saga.
Hestur útí haga,
hryllir sig í frosti.
Helling held ég kosti
hey og skorpubrauð,
að gefa gamla Rauð,
í grimmri vetrarnauð.
Þarna flýgur hvítur hrafn,
hann á kannski myndasafn
af hryggum gömlum hrútum,
á hlýjum gærubútum,
í köldum klettaskútum?
Krumminn á skjánum.
Flöggum nú fánum.
Frjósum á tánum.
Fagur er hann fyrsti des,
fannir hylja dal og nes.
Lifnar brátt einn langintes,
ljúfur Stekkjarstaur.
Hann á engan aur.
Á eftir koma hinir,
soltnir Grýlusynir,
sannir barnavinir.
Krækja sér í kerti og spil,
kjötbita ég eftir skil,
og hey í hörðum mola
handa kuldabola.
Dimm eru dægur,
drottinn minn hægur,
sýnist mér sægur
nú svífa hér inn:
Það er þrösturinn.
Það er vinur minn.
Börnin fara í bólin,
því bráðum koma jólin,
bráðum koma blessuð jólin,
brunandi yfir hólinn.

Sjávargull © Larus Jón - einkasafn
Sjávargull © Larus Jón – einkasafn

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir liðuga bókaorma og hrekkjóttar köngulær!

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Fröken Kúla könguló og fleiri kvæði er sprellibók fyrir börn á öllum aldri, sprottin upp úr uppeldistilraunum á dóttur höfundar. Hún kom út árið 2004 og hefur, að sögn, glatt svefnlesin börn um allt land alla tíð síðan.
Ykkur býðst Fröken Kúla á 2.900 flugur/krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Lesist hátt og leikrænt fyrir börn sem kúra höfuð á kodda. Góða skemmtun og góða nótt!

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun!

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.

Uppfært 07.09.2025 af Lárus Jón