Í Lárusarhúsi býr margt fólk sem lifir við ljórann. Sumir standa, aðrir sitja. Allir hugsa sitt. Kvæðið er frá 2001.
Haust
Sumarfluga suðar lágt og iðar,
svarblá liggur köld í gluggapolli,
gnauðar vindur, grettir sig af hrolli
gamall maður, starir út og riðar,
hokinn, grár og gugginn, orðalaust.
Gulir kertalogar flökta, líða,
órólegar skuggamyndir skríða,
skíman dvínar, hljóðnar fuglaraust.
Slyddan lemur lúinn máðan krossinn,
lútir höfði fölnað viðkvæmt blómið,
– þráða hvíld í mjúkri moldu hlaust,
minningin um fyrsta, eina, kossinn.
Myrkar nætur safnast sálargrómið,
sökin bítur, enn er komið haust.

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir forvitna bókaorma!

Í Lárusarhúsi er fyrsta ljóðabók Lárusar Jóns og innheldur þau prenthæfu ljóð og kvæði sem fylltu skúffuna frægu. Hér kennir margra grasa og misgrænna en þau eru einlægur lítill ljóri í sálarlíf höfundar.
Ykkur býðst heilt Lárusarhús á litlar 2.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Höndlist af varúð og tillitsemi gagnvart viðkæmum höfundi. Njótið vel.
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 04.09.2025 af Lárus Jón