Í Lárusarhúsi er margt að skoða. Þetta kvæði fæddist 2011. Bara ef steinarnir gætu talað.
Steinninn
Titrandi fingurnir leika við lokkana svarta,
lyngbeður ilmar og bælist við sólheitan stein.
Frumkraftur aldanna, ljúfsára algleymið bjarta,
ástarorð vakna til lífsins, svo forboðin, hrein.
Angistarþögul þar krýpur og klæðvana læðist,
kviðurinn þrútinn í skjóli við regnkaldan stein.
Nakinn á úrsvölu lynginu ávöxtur fæðist,
unaður beiskur, í hjartanu svíðandi mein.
Höggvopnið glitrar í blóðguðum hnígandi röðli,
höfuðin slokkna á lyngi við dreyrroðinn stein.
Kviðdómur hvimeygður eigrar frá einmana böðli,
utan úr rökkrinu niðurbælt mjóróma kvein.
Sporköld í dögginni, telpa með húðjálk í taumi,
tötraleg krýpur á lyngið við vorsvalan stein.
Hokin af dómþunga skjálfandi leggur í laumi,
laufkrans á steinorpnar þústir og grætur. Alein.

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Tilboð fyrir forvitna bókaorma!

Í Lárusarhúsi er fyrsta ljóðabók Lárusar Jóns og innheldur þau prenthæfu ljóð og kvæði sem fylltu skúffuna frægu. Hér kennir margra grasa og misgrænna en þau eru einlægur lítill ljóri í sálarlíf höfundar.
Ykkur býðst heilt Lárusarhús á litlar 2.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.
Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.
Höndlist af varúð og tillitsemi gagnvart viðkæmum höfundi. Njótið vel.
Þessi orð eru líka til sölu …
– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –
Segðu þína skoðun!
Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.
Uppfært 04.09.2025 af Lárus Jón