Í Lárusarhúsi: Hvað er ljóð?

Í Lárusarhúsi er fyrsta ljóðabók höfundar, útgefin 2011. Spenntum lesendum mætti stuttur formáli og hugleiðingar:

Í upphafi var orðið

Hvað er ljóð?

Hvað er gott ljóð?

Hver ákveður hvort ljóði skuli lyft eða lagt?

Sum ljóð lifa samtímans laka dóm meðan önnur safnast í glatkistu auðgleymdra ljóða þrátt fyrir upphafnar umsagnir á sinni tíð.

Það er bara hægt að draga einn lærdóm af þessu, samtíminn er og ætíð verður
staurblindur á sjálfan sig.

Enginn veit því hvort og hvaða ljóð eiga erindi við aðra en skapara sinn.

Þetta frelsar höfunda frá því skoðanamyndandi oki sem neikvæð jafnt sem
jákvæð gagnrýni samtíma hans felur í sér. Undirritaður nýtur þessa frelsis til fulls.

Ljóðin í þessu kveri hafa gildi fyrir hann og hafa kviknað út frá hughrifum, tilfinningum og atvikum sem hafa snert hann.

Kannski snerta þau lesendur bókarinnar í dag eða eftir 50 ár, kannski ekki.

Til hvers þá að gefa þau út?

Við þessari spurningu má finna lærð svör en í raun og sannleika er bara eitt hreinskilið og heiðarlegt svar:

Hin hégómlega löngun að sjá eigið nafn og hugverk á prenti.

Og nú er kverið komið út og í þínar hendur fel ég anda minn.

Njóttu vel.

Hafnarfirði, 23. febrúar 2011,
Lárus Jón Guðmundsson

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir forvitna bókaorma!

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Í Lárusarhúsi er fyrsta ljóðabók Lárusar Jóns og innheldur þau prenthæfu ljóð og kvæði sem fylltu skúffuna frægu. Hér kennir margra grasa og misgrænna en þau eru einlægur lítill ljóri í sálarlíf höfundar.
Ykkur býðst heilt Lárusarhús á litlar 2.900 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Höndlist af varúð og tillitsemi gagnvart viðkæmum höfundi. Njótið vel.

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun!

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.

Uppfært 03.09.2025 af Lárus Jón