Hrímbráð á vörum

Höfuðlausn kom út í ágúst 2023 og er söguleg skáldsaga. Hér er kafli úr bókinni (ekki fyrir viðkvæma …).

© 2023 Aðalheiður Ólöf Skarphéðinsdóttir. Tússteikning.
© 2023 Aðalheiður Ólöf Skarphéðinsdóttir.
Tússteikning.

Sörli var ófús til fararinnar og ungi maðurinn láði honum það ekki. Færið var hart í frostinu en nóttin var stillt og minnkandi máninn gægðist milli skýjaslæða. Honum fannst hjartað í brjósti sér slá eins og hamar á steðja en of seint var að snúa við svo hann hvatti klárinn og í draugabirtunni yfir snæviþöktu flatlendinu meðfram Hnausakvíslinni var vel ratljóst suður eftir. Hann fylgdi ánni langleiðina í áttina að Sveinsstöðum, næsta bæ við Þrístapa en tók svo stefnuna vestur að aftökustaðnum. Sörli hægði á sér eftir því sem nær dró vettvangi og Jón leyfði honum að ráða. Honum var órótt og fannst slátturinn í bringunni þyngjast og hækka. Þegar þeir áttu stutt eftir dró frá mána og aftökustallurinn blasti við þeim tæpa hundrað faðma í burtu. Handan við stallinn mótaði fyrir tunglbjörtum og mjúkformuðum snjókollum, Vatnsdalshólunum óteljandi.
  Hesturinn frísaði og stakk við fótum. Jóni tókst að róa klárinn og reyndi ekki að hvetja hann áfram. Hann var ekki myrkfælinn en að sjá höfuðin, þar sem þau tróndu dauðahvít í tunglsljósinu eins og veðurbarnar fífur á grönnum stilkum, var nóg til skjóta mesta hreystimenni skelk í brjóst. Stangirnar voru mislitar neðan við hausana og lyktin af hrímuðu blóðinu fældi hrossið. Sörli var ófáanlegur að fara nær svo Jón steig af baki, hefti hestinn, losaði rekuna sem hann hafði stungið í strigapokana og bundið þvert yfir hnakknefið og lagði hana ásamt pokunum á öxlina. Skófluna hafði hann tekið með til að grafa niður með stöngunum ef þyrfti. Hann tók nokkur skref í áttina að aftökustallinum en eitthvað fékk hann til að nema staðar og leggja við hlustir. Það eina sem rauf dauðaþögnina fyrir utan brjóstbankið og hálfkæfðan andardrátt hans sjálfs var lágt hrísl í mélum og krafsið þegar Sörli reyndi að finna einhverjar sinunálar undir hjarninu. Hann sneri sér hægt í hring. Hvergi sást nokkuð kvikt og skugginn af honum þegar hann sneri baki í tunglið teygði sig alla leið að dökktaumóttum stöngunum. Hann tók viðbragð. Skuggarnir voru tveir! Hann var ekki einn!
  Hann sneri sér snöggt við og reiddi skófluna til höggs en hikaði. Hann sá ekki framan í veruna sem stóð skammt frá honum því andlit hennar var í skugga. Honum leið eins og hjartað í sér væri að springa, svo ótt og hátt sló það að honum fannst niða fyrir eyrunum. Hann hrópaði en röddin var eins og kreist úr skornum hrúti.
  „Hve … hver ert þú?“ Veran svaraði ekki en steig skrefi nær honum. Jón hopaði. „Komdu ekki nær, ég, ég … annars lem ég þig með skóflunni!“
  „Í Guðs almáttugs bænum, vertu rólegur!“ Veran tók nokkur skref til hliðar og sneri sér upp í mánaskinið. Líkföl ásjóna hennar lýstist upp í beittu tunglsljósinu. Jón gapti. Þetta var þá ekki draugur heldur ókunni förumaðurinn frá deginum áður. Jón lét rekuna síga en var við öllu búinn. Maðurinn rétti fram hendurnar.
  „Þér er alveg óhætt, ég er sauðmeinlaus eins og þú sérð,“ sagði hann og geiflaði munninn eins og til að brosa. Tennurnar voru dökkar og sumar brotnar. Andlitið var sem tálgað úr beini og alskeggið sem einhvern tíma hafði verið svart og gróskumikið líktist tættum og rykugum sinubrúski. Slitinn jakkinn var snjóugur og skinnskórnir og sokkarnir klakaklepraðir upp að hnjám. Lambhúshetta, sem hann hafði brotið upp á ennið, hafði einhvern tíma verið hvít og kannski var það skinið af mánanum en núna leit hún út fyrir að vera svört. Förumaðurinn stóð álútur og horfði á hann. Það skein forvitni úr augunum en líka eitthvað annað, einhver glampi að innan.
  „Hvað ert þú annars að gera hér?“ sagði hann og Jóni fannst einhver ósvífinn undirtónn í spurningunni. Hann var búinn að jafna sig og reyndi að bera sig mannalega.
  „Ég gæti spurt þig þess sama.“ Þeir horfðust í augu. Sörli krafsaði í hjarnið fyrir aftan þá. Það rann upp fyrir Jóni að þetta tötramenni var hestlaust. Hvaðan skyldi hann hafa komið? Maðurinn horfði út yfir hólana sunnan við þá og hló lágt.
  „Þér er ekki fisjað saman, að koma hingað í þessu draugaljósi að vitja um þau tvö,“ sagði hann og bandaði hendinni að þöglum höfðunum.   „Varstu sendur hingað?“ Andlit Jóns var sem opin bók og maðurinn kunni að lesa.
  „Ne… nei, ég var bara …“ Jón leit undan. Maðurinn glotti.
  „Ertu kannski hér þér til skemmtunar? Kominn til að kíkja á kollana? Ha?“
  Jóni féllust hendur. Hann óskaði sér langt í burtu því Guðrún húsfreyja hafði lagt ríkt á við hann að enginn mætti vita af þessu.
  „Hafðu ekki áhyggjur,“ sagði maðurinn og hló nú hærra en áður, hlátri sem líktist hóstakjöltri í lungnaveikum sauð.
  „Ég veit til hvers þú ert kominn, væni minn. Einhver guðhrædd sál skipaði þér að fara og sækja þessi höfuð og koma þeim í skjól einhvers staðar, er það ekki?“ Jón starði á förumanninn, lét axlirnar síga og dró djúpt andann. Bankið í brjóstinu hljóðnaði. Honum var létt, þetta erindi hafði legið eins og mara á honum, það fann hann núna. Í aðra röndina var hann feginn að förumaðurinn hafði getið sér til um erindi hans því hann hafði kviðið mikið fyrir að handleika höfuðin en á hinn bóginn langaði hann ekki að mæta húsfreyjunni þegar birti því hún yrði ekki ánægð með þau málalok að höfuðin stæðu óhreyfð. Þessi förumannsskratti myndi ábyggilega bera út um alla sveit einhverjar lygasögur um ónáttúru hans og fordæðuskap og hann yrði líklega að flytja í annan landshluta til að sleikja mannorðssárin.
  „Jú, ég var sendur af Guðrúnu húsfreyju á Þingeyrum og átti að taka höfuðin niður og grafa þau í kirkjugarðinum þar,“ svaraði Jón og rétti fram skófluna eins og til að sanna mál sitt. Hann horfði á förumanninn með endurnýjuðu sjálfstrausti.
  „En þú, til hvers ert þú kominn hingað?“ spurði hann.
  „Til að taka höfuðin niður og grafa þau,“ svaraði förumaðurinn blátt áfram. Jón starði á hann. Var hann að hæðast að honum? Förumaðurinn horfði brosandi á móti. Brosgrettan virkaði einlæg en það var einhver skakki í henni, eitthvað skjönugt sem Jón gat ekki fest fingur á. Förumaðurinn tók nokkur skref að stöngunum og leit á Jón.
  „Ég skal auðvelda þér þetta. Láttu mig hafa skófluna og pokana og ég tek höfuðin niður, fer með þau í kirkjugarðinn og róta vígðri mold yfir þau.“ Hann setti hendur á mjaðmir. Svipurinn lýsti yfirlæti og Jón fann enga góða ástæðu til að mótmæla þótt honum fyndist eitthvað önugt við þetta, eitthvað … eitthvað ókristilegt. Ekki gat verið að æðri máttarvöldum væri þóknanlegt að raska þessari grafarró, eða stauraró … en jafn öndvert var að taka höfuðin niður gegn skipun sýslumanns, þrátt fyrir fullyrðingar Guðrúnar húsfreyju … svo af tvennu illu þá hlaut að vera betra ef þessi förumaður …
  Hann lokaði augunum ósjálfrátt eins og alltaf þegar hann þurfti að taka ákvörðun um eitthvað sem hann var ekki viss um. Hann herti upp hugann.
  „Þú verður þá að lofa mér því að grafa höfuðin í nýorpna leiðinu í garðinum, við austurhornið á kirkjunni, fyrir rismál í fyrramálið.“ Hann beið ekki eftir svari heldur rétti honum rekuna og pokana. Förumaðurinn tók við þeim og kinkaði kolli til höfðanna.
  „Ég lofa því, þú mátt treysta orðum mínum. En áður en þú ferð, ljáðu mér hönd við stangirnar, það er betra að annar okkar styðji við þær meðan hinn losar.“ Jón fann til ónota en gat ekki með góðu móti neitað og þeir gengu að aftökustallinum.
  „Byrjum á stráknum,“ sagði förumaðurinn ákveðið og benti á stöng Friðriks, „svo tökum við þig niður, elskan mín,“ bætti hann við og leit upp til Agnesar og Jón skynjaði annarlegan blæ á röddinni og eitthvert blik í augum förumannsins eða var það kannski bara tunglskinið? Honum fannst sem andað væri niður bakið á sér.
  Förumaðurinn rétti honum rekuna og studdi við hallandi stöngina meðan Jón pjakkaði í frosna jörðina. Stöngin losnaði og seig til hliðar og fyrr en varði hafði förumaðurinn gripið í flókann á Friðriki og kippt höfðinu af stönginni og stungið því ofan í annan strigapokann. Það fór hrollur um Jón þegar hann sá höfuðið svona nálægt sér. Friðrik hafði alltaf verið svipljótur og hafði ekki fríkkað við að skiljast frá sínum synduga búk. Önnur augntóttin gapti eftir kropp hrafnanna, hakan hafði sigið og munnurinn frosið opinn svo skein í hvítar tennurnar.
  Þeir sneru sér næst að Agnesi. Jóni gekk betur að losa um jarðveginn og stöngin fór að hallast. Hún var aðeins lengri en hin stöngin og förumaðurinn greip um hana ofar og ofar eftir því sem hún hallaðist uns hann hafði tak á höfði Agnesar. Brátt var stöngin laus úr frosnum sverðinum en í stað þess að kippa kollinum af settist förumaðurinn á aftökustallinn með höfuðið í fanginu og stöngina enn fasta í krímóttum hálsinum. Jón bjóst til að rétta honum strigapokann en varð þá litið í augu hans. Nú fór ískaldur feigðarhrollur um hann því í augum förumannsins var sem brynni stirndur eldur, líkt og glóandi neistar af hömruðu stáli og ekkert mannlegt horfði út um þau heldur einhver eða eitthvað … djöfullegt. Jón hrökk nokkur skref aftur á bak.
  „Farðu,“ sagði förumaðurinn lágt og strauk hrímað höfuð Agnesar. Það runnu dropar undan hendinni þegar hitinn af henni velgdi kalt hárið.
  „Farðu, ég stend við mitt, höfuðin fara í vígða mold í nótt.“ Jón stóð stjarfur. Förumaðurinn leit snöggt upp.
  „Farðu!“ hvæsti hann.
  Jón tók viðbragð, snerist á hæli og hljóp eins og með fjandann sjálfan á hælum sér til Sörla sem hneggjaði og stappaði. Hann losaði haftið og henti því frá sér, greip í hnakknefið og nánast fleygði sér upp á hestinn. Honum varð litið til förumannsins þegar hann þreif í beislið til að snúa hestinum og varð skelfingu lostinn. Förumaðurinn hélt hægri hendinni um stöngina rétt neðan við blóðstokkinn hálsinn og þeirri vinstri um hnakkann á höfði Agnesar, lagði ennið að enni hennar og talaði til hennar hásum rómi. Jón heyrði ekki orðaskil en það sem fékk hann til að næstum því óhreinka ullarbrækurnar var það sem hann sá, í sömu mund og hesturinn tók á rás fnæsandi af hræðslu.
  Förumaðurinn þrýsti hrímhvítum vörum Agnesar að sínum í ástríðufullum kossi.

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Tilboð fyrir iðandi bókaorma!

Finnskur greiðslukall © Larus Jón - einkasafn
Finnskur greiðslukall © Larus Jón – einkasafn

Höfuðlausn er söguleg skáldsaga og lýsir atburðum sem gerðust til samhliða sakamálinu alræmda sem endaði með síðustu aftökum á Íslandi. Sögumennirnir eru fjórir og eiga það sameiginlegt að heita Jón og burðast með sannleika sem þá hefur skort hugrekki til að opinbera.
Söguþyrstum býðst eintakið á 4.000 krónur ef bókin er sótt til höfundar, ef heimsent þá heimtar pósturinn 630 krónur fyrir þá þjónustu.

Sendu tölvupóst með kennitölu, nafni og heimilisfangi á netfangið ljon190409@gmail.com, taktu fram hvort þú vilt nálgast bókina hjá höfundi eða fá hana senda í pósti og og þú færð kurteisan greiðslukall í heimabanka.

Ef þú leggur við hlustir muntu heyra þakkar- og fagnaðaróp Jónanna fjögurra í heiðarþokunni!

Þessi orð eru líka til sölu …

– o – o – o – o – o – o – o – o – o – o – o –

Segðu þína skoðun!

Uppbyggileg og málefnaleg gagnrýni á inntak texta og efnistök höfundar er vel þegin. Verið kurteis, farið í boltann en ekki manninn og sýnið virðingu, bæði höfundi og öðrum sem viðra skoðanir sínar.

Uppfært 02.09.2025 af Lárus Jón